Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Sýnum karakter á Akureyri gekk vel

25.11.2016

Ráðstefnan Sýnum karakter fór fram í gær, fimmtudaginn 24. nóvember, í Háskólanum á Akureyri. Ráðstefnan og verkefnið Sýnum karakter er náið samstarfsverkefni ÍSÍ og UMFÍ.

Til stóð að fljúga með fríðan hóp fyrirlesara frá Reykjavík til Akureyrar í gær, en vegna veðurs komust nokkrir úr hópnum ekki á staðinn. Ljóst var fyrir ráðstefnuna að áhugi fólks á verkefninu fyrir norðan var mikill og að fjölmennt yrði. Frábær þátttaka var raunin, en 160 manns mættu á ráðstefnuna sem fram fór í Hátíðarsal háskólans. Ingi Þór Ágústsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ opnaði ráðstefnuna og bauð gesti velkomna. Dr. Bragi Guðmundsson formaður kennaradeildar Háskólans á Akureyri ávarpaði ráðstefnugesti og lýsti yfir ánægju sinni með samstarfið og kynnti nýtt nám á sviði kennslu og íþrótta við skólann. Dr. Viðar Halldórsson, lektor í félagsfræði við Háskóla Íslands, hélt sitt erindi í gegnum samskiptaforritið Skype og tókst það mjög vel til. Einnig var myndband af fyrirlestri Pálmars Ragnarssonar körfuknattleiksþjálfara hjá yngri flokkum KR sýnt, en hann hélt erindi á ráðstefnunni sem haldin var í Reykjavík þann 1. október sl. Einnig fluttu erindi þau Dagný Linda Kristjánsdóttir Ólympíufari og skíðaþjálfari, Sævar Árnason, handknattleiksþjálfari og kennari við Brekkuskóla og Jónína Margrét Guðbjartsdóttir landsliðskona í íshokký. Dagný og Sævar töluðu bæði um mikilvægi þess að fá börn til að taka þátt í skipulagningu og ákvarðanatöku tengdar íþróttaæfingum. Þau segja það ýta undir ábyrgð barna og auka áhuga þeirra á þeirri íþrótt sem þau æfa. Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður ÍBA stýrði ráðstefnunni af mikilli röggsemi. 

Fyrirlesararnir sem voru á staðnum tóku síðan þátt í góðum og gagnlegum pallborðsumræðum ásamt gestum ráðstefnunnar. 

Samstarfsaðilar um framkvæmdina á Akureyri voru Háskólinn á Akureyri ásamt Akureyrarbæ.

Þau sem ekki áttu heimangengt og komust ekki á ráðstefnuna geta séð erindin og pallborðsumræðurnar á vefsíðunni www.synumkarakter.is þegar fram líða stundir.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá ráðstefnunni en fleiri myndir má sjá á myndasíðu ÍSÍ á næstunni.

Myndir með frétt