Sýnum karakter - Ávarp forseta
Undanfarin ár hefur umræðan um íþróttir á Íslandi að miklu leyti snúist um góðan árangur íslensks afeksíþróttafólks. Allir eru sammála um að til þess að ná langt í íþróttum þurfi margir þættir að vinna saman og umgjörðin um íþróttafólkið þurfi að vera styrk, bæði faglega og félagslega.
ÍSÍ stendur fyrir öflugu þróunar- og fræðslustarfi, oft í samstarfi við háskólana á Íslandi og/eða ýmsa hagsmunaaðila sem lagt geta til fagþekkingu og fróðleik sem lýtur að eflingu íþróttastarfs í landinu. Undanfarið ár hefur áherslan verið lögð á íþróttamanninn sjálfan og það sem þarf til í umhverfi hans til að hann blómstri og nái framförum og árangri. Gott hugarfar og góður liðsandi getur skipt höfuðmáli og markviss þjálfun andlegra þátta styrkir og eflir, bæði þegar horft er til íþróttalegra þátta en ekki síður til þátttöku í samfélaginu og í lífinu.
Samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ og Íslenskrar getspár, „Sýnum karakter“, byggir á hugmyndafræðinni um að hægt sé að þjálfa og styrkja sálræna og félagslega færni iðkenda líkt og líkamlega færni. Unnið er með markmiðasetningu, áhugahvöt, einbeitingu, sjálfstraust, félagsfærni og leiðtogaþjálfun, svo eitthvað sé nefnt. Verkefnið lifir svo áfram í gegnum vefsíðu þar sem safnað er í „verkfærakistu“ verkfærum fyrir þjálfara til að nýta við þjálfun íþróttafólks.
Einnig var nýlega haldin metnaðarfull þriggja daga Íþróttavísindaráðstefna í Laugardalshöllinni undir heitinu „Frá unglingi til afreksmanns - Heilbrigð sál í hraustum líkama“ þar sem fjölmargir fyrirlesarar voru með áhugaverð erindi.
Gríðarlegur kraftur er í íslenskri íþróttahreyfingu og hefur árangur afreksfólks okkar gefið iðkendum, þjálfurum og öllum þeim sem koma að starfi íþróttahreyfingarinnar mikla innspýtingu og hvatningu til að halda áfram því góða starfi sem unnið er um allt land og gera enn betur.
Framundan eru spennandi tímar og vonandi tekst okkur vel upp við að hlúa að okkar frábæra efnivið, börnum og ungmennum, í framtíðinni svo að við höldum áfram veginn, bæði með bættri lýðheilsu þjóðarinnar og svo góðum árangri fyrir þá sem feta afreksbrautina.Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ