Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Vel heppnuð Íþróttavísindaráðstefna

15.10.2016

Í dag fór fram þriðji dagur Íþróttavísindaráðstefnunnar Frá unglingi til afreksmanns - Hraust sál í heilbrigðum líkama. Tvær málstofur fóru fram í dag, „Endurheimt, svefn og næring“ og „Að koma inn í unglingalandslið „best practice“ frá nokkrum sérsamböndum og umgjörð yngri landsliða“.
Fyrstur á svið var Dr. Erlingur Jóhannsson prófessor í HÍ með erindið „Þjálffræði, endurheimt og svefn“, en í erindi hans kom fram nýjasta þekkingin á þessu sviði. Þar kom berlega í ljós að unglingar hvort sem þau eru í íþróttum eða ekki eru ekki að ná nægjanlegum svefni. Dr. Anna Sigríður Ólafsdóttir prófessor í HÍ steig næst á svið með erindið „Næring íþróttafólks: lykill að árangri og endurheimt “, en erindið var afar áhugavert og á vel við í dag þar sem úrval matar hefur aldrei verið meira og erfitt fyrir ungmenni að átta sig á hvað hentar best. Vandamálið væri oftast að ungt íþróttafólk borðar ekki nægjanlega mikið. Gunnar Páll Jóakimsson frjálsíþróttaþjálfari fór yfir skipulagið í tengslum við ferðalög með tilliti til endurheimtar og hvíldar í sinni vinnu með Anítu Hinriksdóttur Íslandsmethafa í 800 metra hlaupi. Að lokum sagði Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir landsliðskona í handknattleik frá Selfossi frá reynslu sinni í sambandi við hvíld og að ná að hvíla sig á milli æfinga. Hún stundaði tværi íþróttagreinar langt fram á unglingsár, bæði handbolta og hópfimleika. Álagið náði tökunum og hún handleggsbrotnaði. Þar fékk hún loksins hvíldina sem hún þurfti á að halda og síðan þá hefur hún verið betur meðvituð um endurheimtina og hvíldina. Sköpuðust ágætis umræður í kringum efnið og augljóst að þetta málefni hvílir á fólki í íþróttaheiminum.
Tilgangur næstu málstofu var að draga fram það faglega starf sem unnið er innan sérsambanda ÍSÍ í tengslum við uppvöxt einstaklinga í gegnum landsliðin. Það er greinilegt að mikil gróska á sér stað innan fjölmargra sérsambanda og álíkar áherlsur á uppbyggingu næstu kynslóða.
Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ sló botninn í málstofuna með erindinu „Faglegt afreksstarf“. Þau sérsambönd sem gáfu innsýn í „best practice“ úr starfinu sínu voru:

Halldór Björnsson fjallaði um verkefnið Hæfileikamótun KSÍ.
Sveinn Þorgeirsson og Jose Miguel Saavedra fóru yfir samstarf HR og HSÍ um mælingar landsliða HSÍ.
Guðjón Einar Guðmundsson sjúkraflutningamaður og formaður heilbrigðisnefndar FSÍ fjallaði um tilgang ig tilurð nefndarinnar og helstu verkefni.
Landsliðsþjálfarinn í sundi, Jackie J. Pellerin fór yfir langtíma skipulag og þróun íþróttamanna í sundi.
Fulltrúi Blaksambandsins var Stefán Jóhannesson sem fór yfir þróun og sögu unglingalandsliða BLÍ og þá miklu jákvæðu þróun sem hefur orðið á starfinu með tilkomu nýs landsliðsþjálfara og öflugri miðstýringu í landsliðsstarfinu.

Að lokum fór fram vinnustofa sem gerði tilraun til þess að svara spurningunum „Hvernig getum við eflt faglega umgjörð í íþróttastarfi á Íslandi?“ og „Aukin samvinna til sigurs?“ Vinnustofan gekk ágætlega og nokkur mjög góð svör komu fram, sem vert er að vinna með í framhaldinu.
Niðurstöðurnar úr vinnustofunni verða gerðar aðgengilegar. Einnig verða flestar af þeim glærum sem komu fram á ráðstefnunni gerðar aðgengilegar.

Ráðstefnunni stýrði Ingi Þór Ágústsson sem situr í framkvæmdastjórn ÍSÍ og er formaður Heilbrigðisráðs ÍSÍ. Stýrði hann ráðstefnunni af röggsemi og húmor.

Ráðstefnunni lauk um kl. 14:30 á laugardag.

Myndir frá ráðstefnunni má sjá á myndasíðu ÍSÍ.

 

Myndir með frétt