Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Annar dagur Íþróttaráðstefnu ÍSÍ fræðandi

14.10.2016

Í dag fór fram annar dagur Íþróttavísindaráðstefnunnar Frá unglingi til afreksmanns - Hraust sál í heilbrigðum líkama. Á morgun er síðasti dagur ráðstefnunnar, en nóg eftir enn og því hvetur ÍSÍ fólk til að skrá sig hér mæta á staðinn og hlusta á skemmtileg og fræðandi erindi.

Dagskrá morgundagsins má sjá hér að neðan.

Fyrsta málstofa dagsins bar heitið „Líkamsímynd ungmenna“. Fyrst upp á svið í dag var sálfræðingurinn Sigurlaug M. Jónsdóttir en hún er einnig teymisstjóri átröskunarteymis LSH. Erindi hennar bar heitið „Staðreyndir um átraskanir“. Sigurlaug útskýrði hvað það að vera með átröskun þýðir fyrir manneskju, hegðun hennar og annarra í kringum hana. Hún svaraði spurningum eins og: Hvernig þekkjum við einkennin, hverjir eru í helstri áhættu og hvernig getum við brugðist við? Getum við beitt einhverjum forvörnum?

Næst á eftir henni steig á svið Guðlaug Þorsteinsdóttir geðlæknir og ein af stofnendum átröskunarteymis LSH. Hún var með erindið „Að æfa eða ekki æfa“ – átraskanir í íþróttum, sem varpaði skýru ljósi á vandann innan íþróttahreyfingarinnar. Petra Lind Sigurðardóttir, sálfræðingur, hélt áfram á sömu nótum með erindið „Átraskanir og líkamsímynd hjá íslensku íþróttafólki“. Að lokum fengu áheyrendur að heyra reynslusögu íþróttakonu, Birnu Varðardóttur, sem nú nemur næringarfræði við HÍ. Hún hélt erindið „Í skjóli háleitra markmiða“, sem var afar áhugavert og fræðandi. Ágætar umræður sköpuðust í kringum viðfangsefnið.

Að allt öðru, því önnur málstofa dagsins bar heitið „Fremra krossband – áverkar og áhrifaþættir – endurhæfing og endurkoma íþróttamanna“. Fyrst á svið var Dr. Kristín Briem sjúkraþjálfari og prófessor með erindið „Faraldsfræði og áhættuþættir áverka á fremra krossbandi í hné“. Hún sýndi áhorfendum niðurstöður áhugaverðra rannsókna á þessu sviði. Dr. Örnólfur Valdimarsson bæklunarskurðlæknir í Orkuhúsinu steig næstur á svið með erindið „Læknisfræðileg meðferð eftir slit á fremra krossbandi“. Hann sýndi myndbönd frá skurðaðgerðum, til að mynda á krossbandi og liðþófa, og útskýrði vel hvernig slíkar aðgerðir fara fram. Haraldur Björn Sigurðsson doktorsnemi, MSc í íþróttasjúkraþjálfun, talaði um endurhæfingu eftir krossbandaslit í erindi sínu „Endurhæfing eftir krossbandaslit – Stignun endurhæfingar og forsendur öruggrar endurkomu til íþróttaiðkunar“.

Eftir kaffihlé hófst málstofa þrjú sem einblíndi á forvarnir og góða þjálfun. Þá steig fyrst á svið Ragna Ingólfsdóttir Ólympíufari og badmintonkona með erindi sitt „Impossible is nothing – að keppa með slitið krossband á Ólympíuleikum“. Ragna sagði frá sinni reynslu af krossbandasliti og hvernig hún æfði fyrir slysið og eftir slysið sem og eftir aðgerð. Næstur á svið var Róbert Magnússon, sjúkraþjálfari, og talaði hann um forvarnir krossbandameiðsla og skimanir. Síðastur í dag var Stefán Ólafsson, sjúkraþjálfari, með erindið „ Íþróttameiðsli eru sjaldnast óheppni – að tengja vísindin við færni og forvarnaþjálfun unglinga“, sem var afar fróðlegt.

Í þessari málstofu var tilgangurinn að beina athyglinni að forvörnum krossbandameiðsla og mikilvægi góðrar þjálfunar og má segja að áheyrendur hafi farið fróðari heim að loknum degi.

Dagskrá morgundagsins:

Laugardagur 15. október
Kl: 09:00-10:30 Málstofur

Málstofa 4: Endurheimt, svefn og næring
Tilgangur málstofunnar er að beina athyglinni að mikilvægi þess að ungt íþróttafólk fái nægilega endurheimt, hvíld og svefn í sínu daglega lífi. Fræðimenn munu setja fram nýjustu þekkingu á þessu svið, auk þess sem raddir og skoðanir þjálfara og íþróttafólks verða kynntar. 

Þjálffræði, endurheimt og svefn: Dr. Erlingur Jóhannsson prófessor HÍ.

Næring íþróttafólks: lykill að árangri og endurheimt: Dr. Anna Sigríður Ólafsdóttir prófessor HÍ.

Gunnar Páll Jóakimsson frjálsíþróttaþjálfari - segir frá sínum áherslum í tengslum við endurheimt, hvíld og svefn í sinni vinnu með Anítu Hinriksdóttur Íslandsmethafa í 800 metra hlaupi.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir landsliðskona í handknattleik frá Selfossi segir frá reynslu sinni og þeirri miklu áskorun að hvíla sig nægilega mikið. 

Fyrirspurnir og umræður.

Kl: 10:30 Kaffihlé.

Kl: 11:00- 12:30

Málstofa 5: Að koma inn í unglingalandslið „best practice“ frá nokkrum sérsamböndum og umgjörð yngri landsliða.

Tilgangur málstofunnar er að draga fram það faglega starf sem unnið er innan sérsambanda ÍSÍ í tengslum við uppvöxt einstaklinga í gegnum landsliðin.

KSÍ – Halldór Björnsson – Hæfileikamótun KSÍ
HSÍ – Sveinn Þorgeirsson - mælingar landsliða HSÍ/HR 
FSÍ –– Guðjón Einar Guðmundsson - Heilbrigðisnefnd FSÍ
KKÍ –Stofnun fagráðs KKÍ
SSÍ – Jackie J. Pellerin landsliðsþj. – Langtíma skipulag og þróun íþróttamannsins

Faglegt afreksstarf: Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ.

Kl: 12:30-13:00 Hádegismatur.

Kl: 13:00-14:00 

Vinnustofa: Hvernig getum við eflt faglega umgjörð í íþróttastarfi á Íslandi? Aukin samvinna til sigurs?


Ráðstefnustjóri: Ingi Þór Ágústsson, framkvæmdastjórn ÍSÍ, formaður Heilbrigðisráðs ÍSÍ.

Kl:14:15 Samantekt og ráðstefnuslit.

Myndir frá ráðstefnunni má sjá á myndasíðu ÍSÍ.

Myndir með frétt