Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Þrír skólar dregnir út í Norræna skólahlaupinu 2016

07.10.2016
Norræna skólahlaupið er haldið í 33. sinn í ár en með hlaupinu er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Nemendur gátu nú eins og áður valið um þrjár vegalengdir þ.e. 2,5 km, 5 km og 10 km. Hver þátttakandi og hver skóli fékk viðurkenningu þar sem tilgreindur var árangur í hlaupinu. Mjólkursamsalan hefur styrkt útgáfu viðurkenningarskjala frá upphafi og samstarfsaðili eins og áður er Íþrótta- og heilsufræðingafélag Íslands.
 
Í ár eins og í fyrra var ákveðið að draga út þrjá skóla sem tóku þátt og luku hlaupinu fyrir 1. október ásamt því að skila inn upplýsingum til ÍSÍ. Þátttaka í hlaupinu hefur verið mjög góð en 50 skólar hafa nú þegar skilað inn niðurstöðum um hlaupið og voru með í útdrættinum. Blossi hjálpaði til við að draga út skólana ásamt Líneyju Rut Halldórsdóttur framkvæmdastýru ÍSÍ og Ragnhildi Skúladóttur sviðsstjóra fræðslumála. Skólarnir sem fá verðlaun að þessu sinni eru Áslandsskóli í Hafnarfirði, Húnavallaskóli í Húnavatnssýslu og Ölduselsskóli í Reykjavík. Hver þessara þriggja skóla fær 100.000 króna inneign í Altis, en Altis selur vörur til íþróttaiðkunar sem nýtast nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu.
 
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands þakkar öllum þeim skólum sem tóku þátt kærlega fyrir þátttökuna, en bendir jafnframt á að enn er hægt að hlaupa og fá viðurkenningarskjöl þó að búið sé að draga út vinningana. Hægt er að sjá upptöku af útdrættinum á fésbókarsíðu ÍSÍ.

Myndir með frétt