Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Ólympíuleikarnir 2016

23.09.2016

Við áttum svo sannarlega góða daga á Ólympíuleikunum í Ríó. Það voru ákveðnir, bjartsýnir og einbeittir keppendur sem mættu til Ríó fyrir hönd okkar Íslendinga. Þeir voru allir tilbúnir til að gera sitt besta og vera landi og þjóð til sóma. Það tókst svo sannarlega.

Það var gaman að sjá Íslandsmet slegið í 800 m hlaupi kvenna og frábært að okkar keppandi næði þar 20 besta tíma í undanrásum. Við vorum sérstaklega stolt af því að í fyrsta skipti komst sundkona frá Íslandi í undanúrslit í sundi á Ólympíuleikum, og ekki bara ein sundkona heldur tvær. Þær syntu ekki bara einu sinni heldur syntu þær báðar tvisvar sinnum í undanúrslitum. Þá er ekki öll sagan sögð því þær syntu einnig báðar í úrslitasundi. Þetta eru svo sannarlega mikil tíðindi. En þau koma ekki á óvart eftir glæsilegan árangur sundfólksins okkar á undanförnum misserum.

Ólympíuleikar eru stærsti íþróttaviðburður heims og á margan hátt hápunktur í lífi íþróttafólks og stórviðburður flestra, ef ekki allra, þátttökuþjóða. Að leikunum loknum er árangurinn veginn og metinn og horft gjarnan til framtíðar og byrjað að skipuleggja starfið með frekari afrek í huga. Að þessu sinni er framtíðarsýn afreksíþróttastarfsins á Íslandi mikið breytt frá því sem við höfum þekkt fram að þessu. Möguleikar okkar til að byggja upp alvöru umgjörð fyrir okkar afreksfólk og afrekslið hafa aldrei verið betri. Með samningi sem undirritaður var á milli ÍSÍ og stjórnvalda þann 28. júlí sl. varð sannarlega bylting í fjármögnun afreksíþróttastarfs á Íslandi. Framlag ríkisins til Afreksíþróttasjóðs ÍSÍ er með þeim samningi hækkað í þremur áföngum í 400 milljónir kr. Allt þar til á allra síðustu árum hefur árlegt framlag verið á bilinu 20 – 30 milljónir kr. Með þessum samningi opnast tækifæri til að skapa afreksíþróttastarfinu þá umgjörð sem það verðskuldar. Nú verða loks tækifæri til að styðja við bakið á okkar afreksfólki þannig að sómi sé að. Við höfum verið langt á eftir nágrannaþjóðum okkar í þessu tilliti en nú verður breyting á. Það er því sérstaklega spennandi framtíðarsýn sem við okkur blasir á þessum tímamótum.

Þessi gríðarlega aukning á stuðningi ríkisins við Afrekssjóð ÍSÍ kallar á ákveðnar breytingar. Afrekssjóður ÍSÍ mun nú hafa allt aðra möguleika til að beita sér í þágu afreksstarfsins en verið hefur. Því er ljóst að nauðsynlegt er að endurskoða þær reglur sem um sjóðinn gilda og móta þær að þessum breyttu aðstæðum. Framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur nú skipað vinnuhóp til að vinna að því verkefni en með hópnum munu starfa margir íslenskir aðilar sem getið hafa sér gott nafn bæði hérlendis og erlendis og þekkja vel til afreksmála. Það er mjög mikilvægt að við þessa endurskilgreiningu á hlutverki Afrekssjóðs ÍSÍ sé vandað vel til verka þannig að góð sátt náist um breytingarnar.

Góðir félagar. Það eru spennandi tímar framundan í uppbyggingu afreksstarfsins hjá okkur í ÍSÍ og sambandsaðilum ÍSÍ. Við erum þakklát stjórnvöldum fyrir þann samning sem undirritaður var 28. júlí sl. Sérstaklega erum við þakklát Illuga Gunnarssyni mennta- og íþróttamálaráðherra fyrir hans aðkomu að málinu. Nú er það okkar að sjá til þess að þessir fjármunir muni nýtast vel og vonandi tryggja okkur Íslendingum enn betri árangur á Ólympíuleikum sem og öðrum stórmótum í framtíðinni.