Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Ríó 2016 - Íslenskir keppendur í Ríó

12.09.2016

Síðastliðna daga hefur verið stíf dagskrá hjá íslensku keppendunum á Paralympics í Ríó. Þann 9. september keppti Helgi Sveinsson í flokki F42-44 í spjótkasti. Helgi var fyrstur íslensku keppendanna á svið. Sextán keppendur náðu þátttökurétti í greininni og þótti Helgi mjög sigurstranglegur. Allir keppendur fengu þrjú köst og síðan héldu átta efstu keppendurnir að þeim loknum áfram og fengu þrjú köst til viðbótar. Helgi komst áfram eftir fyrstu þrjú köstin. Kastsería Helga í keppninni var þessi: 53.96 - 48.88 - 52.72 - 53.45 - 53.32 - 49.99.  Hann varð fimmti í keppninni með kast upp á 53.96 m., en það er nýtt Paralympic-met í flokki F42. Þar með lauk Helgi þátttöku sinni á Paralympics en sigurvegari keppninnar var Akeem Stewart sem setti nýtt heimsmet í flokki F43 þegar hann kastaði 57.32 m.

Daginn eftir, þann 10. september, kepptu sundkonan Thelma Björg Björnsdóttir og bogfimimaðurinn Þorsteinn Halldórsson. Þorsteinn keppti í  útsláttarkeppni þar sem hann safnaði stigum og að henni lokinni var ljóst hvaða andstæðing hann fékk í útsláttarkeppninni, Kj Polish frá Bandaríkjunum, en keppnin fer fram þann 14. september nk. Polish er raðað nr.2 í mótið, en Þorsteini nr. 31. Thelma hafnaði í 19. sæti af 20 keppendum í 50 m skriðsundi á tímanum 42.14 sek. Thelma lauk þar með keppni í 50 m skriðsundi, en hún hélt áfram keppni í gær, þann 11. september, þegar hún synti í undanrásum í 100 m bringusundi. Thelma Björg hafnaði í ellefta sæti í undanrásunum er hún kom í mark á 1:58,69. Hún komst ekki í úrslitin en aðeins átta fóru áfram í úrslit. Fyrst í mark kom hin úkraínska Yelyzaveta Mereshko á 1:43,41.

Í gærkvöldi keppti sundmaðurinn Jón Margeir Sverrisson í 200 m skriðsundi S14. Jón Margeir var með fimmta besta tímann í undanrásunum er hann kom í mark á 2:00,01, hálfri sekúndu frá tímanum sem skilaði honum gullverðlaunum á Paralympics 2012. Í úrslitasundinu náði Jón Margeir tímanum 1.57.50 mín. og hafnaði í 4. sæti, en sigurvegari kvöldsins, Tang Wai Lok frá Hong Kong, sigraði á tímanum 1.56.32 mín. Úrslitasundið var æsispennandi og voru fimm keppendur sem gerðu tilkall í gullið en silfrið fór til Bretans Tom Hamer sem synti á 1.56.58 mín og bronsið fór til Ástralans Daniel Fox sem synti á tímanum 1.56.69 mín. Jón Margeir á enn tvær greinar eftir, 100 m bringusund og 200 m fjórsund. 

Í dag keppir Thelma Björg Björnsdóttir í sinni þriðju grein, 200m fjórsundi.

Hér má sjá keppnisdagskrá íslensku keppendanna í Ríó.

Alls eiga 176 þjóðir full­trúa á Paralympics og á Kína flesta eða 308 tals­ins. Kínverjar hafa unnið til flestra verðlauna, eða samtals 92, þar af 39 gullverðlauna. Bretland hafa síðan unnið til 56 verðlauna og Úkraína 49.

Vefsíða leikanna er rio2016.com

 

Myndir með frétt