Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
7

Norræna skólahlaupið 2016

31.08.2016Norræna skólahlaupið verður sett í Grunnskóla Sandgerðis föstudaginn 2. september 2016 kl. 10:00. Norræna skólahlaupið er árlegt verkefni sem grunnskólum á Norðurlöndunum býðst að taka þátt í. Hlaupið var fyrst haldið árið 1984 og verður haldið í 33. skipti í ár. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands sér um framkvæmd verkefnisins á Íslandi.

Markmiðið með Norræna skólahlaupinu er að hvetja nemendur til að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Á síðasta ári tóku rúmlega 15.000 grunnskólanemendur frá um 63 skólum á Íslandi þátt í hlaupinu og hlupu til samans um 40 hringi í kringum landið, en hægt er að velja um þrjár vegalengdir 2,5, 5 og 10 kílómetra. Árið 2015 tengdist verkefnið í fyrsta sinn Íþróttaviku Evrópu, sem er verkefni á vegum Evrópuráðsins. Af því tilefni var bryddað upp á þeirri nýjung að draga út þrjá skóla sem tóku þátt í Norræna skólahlaupinu og luku hlaupinu fyrir 30. september 2015. Verðlaunin hlutu Grunnskóli Hólmavíkur, Seljaskóli í Reykjavík og Víðistaðaskóli í Hafnarfirði, en til mikils var að vinna því hver þessara þriggja skóla fékk 100.000 króna inneign í Altis. Altis selur vörur til íþróttaiðkunar sem nýtast nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu. Nú í ár tengist verkefnið einnig Íþróttaviku Evrópu og verða þrír skólar sem að ljúka hlaupinu fyrir 30. september 2016 dregnir út til verðlauna.

Tveir afreksíþróttamenn, Ólympíufarinn Guðni Valur Guðnason og Ari Bragi Kárason Íslandsmethafi í 100m hlaupi, ásamt Blossa, lukkudýri Smáþjóðaleikanna 2015, ætla að vera í Grunnskóla Sandgerðis á föstudag og hvetja krakkana áfram í hlaupinu. Mjólkursamsalan, sem hefur styrkt hlaupið frá upphafi, mun gefa krökkunum ískalda mjólk í lok hlaupsins.

Verkefnið nýtur stuðnings ÍSÍ, Mjólkursamsölunnar og Evrópuráðsins, og er í samvinnu við Íþrótta- og heilsufræðifélag Íslands.