Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Keppni hafin í Lillehammer

13.02.2016

Keppni er hafin á Vetrarólympíuleikum ungmenna í Lillehammer. Í dag kepptu þau Dagur Benediktsson og Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir.

Dagur keppti í göngukrossi sem er ný keppnisgrein. Í göngukrossi er brautin stutt og skíðað er með frjálsri aðferð. Greinin er frábrugðin sprettgöngu að því leiti að brautin reynir á tæknilega með brekkum, knöppum beygjum og pöllum sem stokkið er framaf. Í upphafi er tímataka þar sem þeir 30 hröðustu komast áfram í þrjá milliriðla - tíu keppendur fá svo sæti í úrslitunum. Dagur fór brautina á 3.37,17 sem skilaði honum í 42. sæti.

Hólmfríður Dóra keppti í risasvigi. Risasvig er hraðagrein svipuð stórsvigi en lengra er á milli hliða og keppendur ná enn meiri hraða en í stórsvigi. Einungis er ein umferð í hraðagreinum. Hólmfríður Dóra fór brautina á 1.17,92 rétt tæpum sex sekúndum á eftir austurrísku stúlkunni sem sigraði. Árangurinn skilaði Hólmfríði Dóru 26. sæti af 45 keppendum sem hófu leik.

Á myndunum sem fylgja má annarsvegar sjá Hólmfríði Dóru að lokinni keppni og svo Dag ásamt þjálfara sínum Steven Gromatka.

Myndir með frétt