Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Ráðstefna Reykjavíkurleikanna

22.01.2016

Hin árlega ráðstefna Reykjavíkurleikanna fór fram í gær í Háskólanum í Reykjavík og var hún ágætlega sótt. Fyrirlesarar komu víða að, frá Bandaríkjunum, Svíþjóð, Bretlandi, Frakklandi og svo Íslandi. Megin þema ráðstefnunnar var styrktarþjálfun og voru fyrirlesarar sammála um að mikilvægt sé að sinna henni allan íþróttaferilinn, ekki eingöngu hjá afreksfólki. 

Sjö áhugaverðir fyrirlesarar fluttu erindi: 

•Dr. Ronal Kipp, fræðslustjóri skíða- og snjóbrettasambands Bandaríkjanna, fjallaði um þróun íþróttamannsins en hann er sérfræðingur í hreyfifærni og er mjög reyndur fyrirlesari. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að æfingar barna væru fjölbreyttar og það væri ekki endilega besta barnið sem yrði framtíðar afreksmaður, það væri ýmislegt annað sem skipti máli.
•Jacky Pellerin, landsliðsþjálfari Íslands í sundi og þjálfari Eyglóar Óskar íþróttamanns árins, ræddi um mikilvægi styrktarþjálfunar hjá sundmönnum og gaf innsýn í hvernig styrktarþjálfun er háttað hjá okkar bestu sundmönnum. 
•Dr. Michail Tonkonogi, prófessor í íþróttalífeðlisfræði, fjallaði um styrktarþjálfun barna. Hann lagði áherslu á að styrktarþjálfun væri mikilvæg í þjálfun barna og ætti hún að fara fram með eigin líkama.
•Hlín Bjarnadóttir, sjúkraþjálfari og fimleikaþjálfari, varpaði ljósi á hvað það er í þjálfun fimleikafólks sem hjálpar því að ná árangri í annarri íþróttagrein. Þórey Edda Elísdóttir og Fanney Hauksdóttir
 hófu báðar íþróttaferilinn í fimleikum og náðu þar góðum árangri en söðluðu um og náðu árangri á heimsmælikvarða annars vegar í stangastökki og hins vegar í kraftlyftingum.

•Í lokinn tók Adólf Ingi Erlingsson sem stýrði ráðstefnunni viðtal við Dwain Chambers, breskan spretthlaupari sem  unnið hefur til fjölda verðlauna á heims og Evrópumótum og er einn besti evrópski spretthlaupari sögunnar. Sagði hann á hreinskilnislegan hátt frá afrekum sínum og aðdraganda og afleiðingum þess að hann var tekinn fyrir ólöglega lyfjanotkun. Að lokum gafst ráðstefnugestum tækifæri á að spyrja Dwain Chambers.

Ráðstefnan var samstarfsverkefni ÍSÍ, ÍBR og Háskólans í Reykjavík.

 

Myndir með frétt