Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
18

Ársþing Golfsambands Íslands 2015

24.11.2015

Ársþing Golfsambands Íslands fór fram í Fjölbrautaskóla Garðabæjar laugardaginn 21. nóvember sl. Ný stjórn var kjörin og eru nú alls 11 aðilar í stjórninni. Gylfi Kristinsson og Bergþóra Sigmundsdóttir gáfu ekki kost á sér til endurkjörs en stjórn GSÍ verður þannig skipuð næstu tvö árin:  Haukur Örn Birgisson forseti, Bergsteinn Hjörleifsson, Eggert Ágúst Sverrisson, Kristín Guðmundsdóttir, Rósa Jónsdóttir, Hansína Þorkelsdóttir, Helgi Anton Eiríksson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Gunnar Gunnarsson, Jón Júlíus Karlsson og Theódór Kristjánsson. Helgi Anton, Hansína og Þorgerður Katrín eru ný í stjórn GSÍ en aðrir voru endurkjörnir.

Fjórir aðilar fengu gullmerki Golfsambandsins fyrir störf sín og vinnu í þágu golfíþróttarinnar, þau Páll Ketilsson, Gylfi Kristinsson, Bergþóra Sigmundsdóttir og Hörður Þorsteinsson. Sjálfboðaliði ársins var valinn og að þessu sinni var það Viktor Elvar Viktorsson úr Leyni sem var mótsstjóri Íslandsmótsins sem fram fór á Garðavelli á Akranesi í sumar.
Fjárhagsstaða GSÍ er sterk þrátt fyrir 1,5 milljóna kr. tap en gert var ráð fyrir tæplega 2 milljóna kr. hagnaði í fjárhagsáætlun. Rekstrartekjur ársins 2015 voru 151.241.944 milljónir kr., en rekstrargjöld voru  152.798.232 milljónir kr.
Haukur Örn Birgisson forseti GSÍ kynnti niðurstöðu starfshóps sem fjallaði um framtíðarsýn Eimskipsmótaraðarinnar. Töluverðar breytingar eru fyrirhugaðar á mótaröð bestu kylfinga landsins og eru tillögurnar að finna í ársskýrslu GSÍ.
Stefnt er að því að á næstu árum verði búið að flokka keppnisvelli landsins og í framtíðinni verður Íslandsmótið haldið á þeim völlum sem uppfylla ákveðin skilyrði sem sett verða fram í þessu flokkunarkerfi. Fallið var frá þeirri hugmynd að Íslandsmótið fari fram í fjögur skipti á fimm ára tímabili á völlum á höfuðborgarsvæðinu.

Garðar Svansson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ flutti kveðjur frá forseta, stjórn og starfsfólki ÍSÍ og óskaði Hauki Erni til hamingju með kjörið til stjórnar Evrópska golfsambandsins. Hann færði einnig Herði Þorsteinssyni þakkir fyrir gott samstarf en Hörður lætur af störfum sem framkvæmdastjóri GSÍ um næstu áramót. Síðast en ekki síst þakkaði hann GSÍ fyrir frábært samstarf í undirbúningi og framkvæmd Smáþjóðaleikanna 2015 en golf var þar í fyrsta skipti ein af keppnisgreinum leikanna. Aðrir fulltrúar ÍSÍ á þinginu voru Gunnar Bragason og Hafsteinn Pálsson.