Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Fréttatilkynning frá Alþjóðaólympíunefndinni vegna meints lyfjamisferlis

12.11.2015

Íþróttahreyfingin hefur verið í kastljósinu síðastliðna daga vegna meints lyfjamisferlis rússneska frjálsíþróttasambandsins og rússnesks íþróttafólks.

Sérstök óháð rannsóknarnefnd á vegum Alþjóðalyfjaeftirlitsins (WADA) hefur verið að rannsaka málið í þó nokkurn tíma og kynnti þann 9. nóvember sl. niðurstöðu sína þar sem talað er um stórfellda lyfjamisnotkun rússneskra frjálsíþróttamanna sem kerfisbundið á að hafa verið unnin í samvinnu við rússneska frjálsíþróttasambandið (ARAF) og yfirvöld. Nefndin leggur til í skýrslu sinni að keppendur á vegum rússneska frjálsíþróttasambandsins verði útilokaðir frá keppni í frjálsum íþróttum vegna lyfjamisnotkunar og annarra brota á Alþjóðalyfjareglunum ásamt því að setja þurfi ákveðna þjálfara og íþróttamenn í lífstíðarbann. Í skýrslunni er talið að fjöldi rússneskra frjálsíþróttakeppenda hafi verið á ólöglegum lyfjum á Ólympíuleikunum í London 2012 og að það sé ein ástæðan fyrir velgengni Rússlands á leikunum.

Í fréttatilkynningu sem Alþjóðaólympíunefndin (IOC) sendi frá sér á dögunum um skýrsluna kemur fram að hún treysti því að Alþjóðafrjálsíþróttasambandið muni skoða málið til hlítar og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir í framhaldinu, því hjá þeim liggur ábyrgðin. Alþjóðaólympíunefndin leggur áherslu á að vernda þurfi það íþróttafólk sem neytir ekki ólöglegra lyfja og byggja aftur upp traust í íþróttinni. 

Í fréttatilkynningunni segir að nefndin muni halda áfram að gera hverjar þær ráðstafanir sem þarf til að standa vörð um heiðarleika íþróttafólks, hreinleika íþrótta og góða stjórnarhætti. Nýverið boðaði forseti IOC til samráðsfundar helstu íþróttaleiðtoga alþjóðasambanda og Ólympíuhreyfingarinnar.  Þar var ákveðið að koma á fót eftirlitsstofnun sem framkvæmir lyfjaprófanir óháð íþróttasamböndum. Beðið er eftir tillögum um slíkt eftirlit frá Alþjóðalyfjaeftirlitinu.

Alþjóðaólympíunefndin mun rannsaka skýrslu nefndar Alþjóðalyfjaeftirlitsins gaumgæfilega með hliðsjón af Ólympíuleikunum. Ef upp kemst um einhver brot íþróttafólks og/eða föruneytis þeirra á lyfjareglum mun Alþjóðaólympíunefndin bregðast við slíku án nokkurs umburðarlyndis eins og tíðkast hefur á síðastliðnum árum.

Siðanefnd Alþjóðaólympíunefndarinnar hefur nú mælt með því að útnefning fyrrum forseta Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, Lamine Diack, sem heiðursfélaga Alþjóðaólympíunefndarinnar verði afturkölluð til bráðabirgða.

Alþjóðalyfjaeftirlitið er nú þegar búið að afturkalla leyfi rannsóknarstofunnar í Moskvu til þess að greina sýni á íþróttafólki sem heyra undir lögsögu eftirlitsins, á grundvelli grunsemda um að ekki sé þar rétt staðið að málum. Sebastian Coe, forseti Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins (IAAF), hefur gefið Rússum frest út vikuna til þess að svara skýrslunni.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands fylgir Alþjóðalyfjareglum Alþjóðalyfjaeftirlitsins (WADA). Þessar lyfjareglur eru samþykktar og framkvæmdar í samræmi við ábyrgðarsvið Lyfjaeftirlits ÍSÍ samkvæmt Alþjóðalyfjareglunum og eru til að styrkja þá viðleitni Lyfjaeftirlitsins að útrýma lyfjamisnotkun í íþróttum á Íslandi.

Alþjóðalyfjareglurnar voru fyrst samþykktar árið 2003 og tóku gildi árið 2004. Nýjar og uppfærðar lyfjareglur tóku gildi 1. janúar 2015 og má sjá hér.

Tilgangur Alþjóðalyfjareglnanna er að vernda grundvallarrétt íþróttamanna til að taka þátt í lyfjalausum íþróttum og stuðla þannig að heilbrigði, sanngirni og jafnrétti fyrir íþróttamenn um allan heim. Auk þess að tryggja samræmdar, samstilltar og skilvirkar áætlanir gegn lyfjanotkun á alþjóðavísu og landsvísu hvað varðar greiningu, hömlur og forvarnir.

Lyfjareglurnar eru grundvallarskjalið sem Alþjóðalyfjaeftirlitið í íþróttum byggir á. Alþjóðalyfjareglunum fylgja alþjóðleg viðmið um lyfjapróf og undanþágur vegna lækninga.
Megintilgangur alþjóðlegu reglnanna um lyfjapróf er að skipuleggja skilvirk próf, bæði í keppni og utan keppni, og að varðveita heilindi og auðkenni sýnanna, allt frá tilkynningu til íþróttamanns til flutnings sýnanna á rannsóknarstofu til greiningar.

Alþjóðlegu reglurnar um lyfjapróf fela í sér reglur um skipulag á dreifingu prófa, tilkynningar til íþróttamanna, undirbúning og umsjón með sýnatöku, öryggisgæslu og umsjón tekinna sýna og flutning þeirra.

Nánar má lesa um málið á heimasíðu Alþjóðaólympíunefndarinnar, www.olympic.org.

Myndir með frétt