Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.11.2024 - 12.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
13

Íþróttir á Íslandi: Umfang og hagræn áhrif

09.10.2015

Í gær fór fram málþing um umfang og hagræn áhrif íþrótta í samfélaginu.

Dr. Þórólfur Þórlindsson prófessor og Dr. Viðar Halldórsson lektor frá HÍ hófu málþingið með því að kynna áfangaskýrslu sem ber heitið „Íþróttir á Íslandi: Umfang og hagræn áhrif“.

Tilgangurinn með skýrslunni er þríþættur. Í fyrsta lagi að leggja grunn að frekari úttekt og rannsóknum á stöðu og umfangi íþrótta, afmarka viðfangsefnið og kanna hvaða gögn um hagrænt gildi íþrótta séu aðgengileg. Í öðru lagi er verið að greina megin þætti íþróttastarfsins sem mikilvægt er að skoða nánar. Í þriðja lagi eru settar fram fyrstu niðurstöður um tiltekna efnisþætti þessa verkefnis.

Íþróttir eru mjög umfangsmiklar í íslensku samfélagi. Þær snerta ótrúlega mörg svið þjóðlífsins. Viðar og Þórólfur leituðust sérstaklega við að fjalla um framlag íþrótta á eftirtöldum sviðum:

Umfang íþrótta- þátttakendur:
• Ríflega 28% landsmanna eru skráðir iðkendur innan ÍSÍ
• Um 60% ungmenna æfa íþróttir með íþróttafélagi
• Þar af æfa um 40% ungmenna íþróttir 4 sinnum eða oftar í viku með íþróttafélagi

Ferðamennska:
• Íþróttaferðir vega töluvert í nútíma ferðamennsku
• Um 25-30.000 manns koma til landsins árlega vegna íþróttaviðburða og íþróttastarfs
• Sem dæmi má nefna þá er velta Unglingalandsmóts UMFÍ og Reykjavíkurmaraþons er í kringum 20.000.000 fyrir hvort mót.
• Heilsutengd ferðamennska og íþróttir skarast einnig verulega

Alþjóðavæðing íþrótta og afreksmennska:
• Beinar gjaldeyristekjur nema nálægt 4 milljörðum
• Óbeinar gjaldeyristekjur eru einnig umtalsverðar

Lýðheilsa og forvarnir:
• Í kyrrsetuþjóðfélagi nútímans þá vega íþróttir þungt í hreyfingu barna og ungmenna. Framlag íþrótta til heilsu í tengslum við hreyfingu er erfitt að meta en það má áætla að sú tala hlaupi á milljörðum
• Framlag íþrótta til forvarna, til dæmis í tóbaksvörnum er verulegt. Erfitt er að meta slíkt með nákvæmum hætti. Í því sambandi má þó geta þess að kostnaður þjóðfélagsins vegna reykinga nemur 20-25 milljörðum á hverju ári.

Stefnumótun og sóknarfæri:
Það er mikilvægt að hafa í huga að vaxtarmöguleikar íþróttastarfsins eru miklir og tækifærin óþrjótandi. Með því að byggja á því sem vel er gert og endurskipuleggja starfið í ljósi breyttra aðstæðna má efla gildi íþróttastarfsins á öllum sviðum. Í því sambandi er rétt að hafa eftirfarandi atriði í huga. Í fyrsta lagi er hnattvæðingin og vaxandi gildi íþrótta á alþjóðavettvangi að gjörbreyta hagrænu gildi íþrótta. Þessi þróun skapar fjölbreytt sóknarfæri sem gætu skilað auknum gjaldeyristekjum, ef rétt er á haldið. Í öðru lagi skapa breyttir atvinnuhættir, svo sem vaxandi íþróttatengd ferðamennska, mikilvæg og áður óþekkt sóknarfæri. Í þriðja lagi verður að hafa í huga að breytt staða íþrótta byggist á vaxandi vinsældum þeirra sem skemtiefnis í fjölmiðlum. Að lokum má nefna að breyttir lifnaðarhættir hafa skapað íþróttastarfinu æ stærra hlutverk í eflingu lýðheilsu. 

Það verður hins vegar alltaf að hafa í huga að hagrænt og þjóðfélagslegt gildi íþrótta fer fyrst og fremst eftir því hversu vel er að starfinu staðið. Í þessu sambandi má nefna að góður árangur íþróttastarfs hér á landi byggist á því að mjög vel er staðið að barna- og unglingastarfi í sveitarfélögum út um allt land. Þetta starf leggur grunninn að afreks-og almenningsíþróttum sem og gildi íþrótta á öðrum sviðum. Sé vel að íþróttastarfinu staðið hefur það mikið gildi á mörgum sviðum samfélagsins. Sé hins vegar illa að íþróttastarfinu staðið er það marklaust og jafnvel skaðlegt. Stefnumótun í íþróttum verður að taka tillit til þess hversu margþætt og fjölbreytt íþróttastarfið er orðið. Það er mikilvægt að hinir ólíku þættir starfsins vinni sem best saman. Á sama hátt er brýnt að huga að einsökum þáttum og sinna vel afmörkuðum sérverkefnum. Sem dæmi má nefna að mikilvægt er að brúa bilið milli barna- og unglingastarfsins annars vegar og afreksmennsku og almenningsíþrótta hins vegar. Í þessu sambandi er óhjákvæmilegt að taka tillit til þess hve ólík staða hinna ýmsu íþróttagreina er. Með heildrænni sýn og stefnumörkun íþróttamála til framtíðar er hægt að nýta þau sóknarfæri sem bjóðast á íþróttasviðinu og geta íþróttir því haft enn veigameira gildi í íslensku samfélagi í framtíðinni en þær gera í dag.

Eftir kynningu Viðars og Þórólfs var kaffihlé en síðan hófust pallborðsumræður. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ, Dr. Þórólfur Þórlindsson, Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri Seltjarnarness og Dr. Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands sátu fyrir svörum. 

Fjölmargar fyrirspurnir bárust úr sal og myndaðist góður umræðuvettvangur um málefnið.

Málþingið var haldið í samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Háskóla Íslands.

Myndir með frétt