Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

13

Forvarnardagurinn 2015

06.10.2015

Forvarnardagurinn 2015 var haldinn föstudaginn 2. október sl. Í tilefni af deginum heimsótti forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, fjóra skóla, Vættarskóla í Reykjavík, Brekkubæjarskóla á Akranesi, Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, fór með forsetanum í skólana ásamt föruneyti frá ÍSÍ. 

Fimmtudaginn 1. október hélt forsetinn blaðamannafund í Vættarskóla í Reykjavík. Þar tók hann þátt í kynningu á Forvarnardeginum en meðal þátttakenda voru nemendur og stjórnendur skólans auk fulltrúa frá samstarfsaðilum dagsins. Líney Rut og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, voru einnig viðstödd og ávörpuðu þátttakendur. 

Föstudaginn 2. október heimsótti forsetinn og föruneyti ÍSÍ Brekkubæjarskóla á Akranesi og ræddi forsetinn þar við nemendur um þær þrjár meginreglur sem boðskapur dagsins felur í sér: Að stunda skipulagt íþrótta- og tómstundastarf, að verja klukkustund á dag með fjölskyldu og að bíða sem lengst með að neyta áfengis. Því næst heimsótti forsetinn Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Þar ávarpaði hann nemendur á sal skólans og skoðaði verkefnavinnu ásamt því að heimsækja kennslustofur, bæði í bóknámi og verknámi. Að lokum heimsótti forsetinn Fjölbrautaskólann í Breiðholti í tilefni af 40 ára afmæli skólans. Þar ræddi hann við nemendur á sal um mikilvægi forvarna og þær einföldu lífsreglur sem skila mestum árangri, svaraði fjölmörgum fyrirspurnum um margvísleg málefni, heimsótti kennslustofur í ýmsum greinum og ræddi við kennara í mötuneyti þeirra.

 

Forvarnardagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu. Íslenskar rannsóknir sýna að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna. 

Niðurstöðurnar byggja á rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík sem hafa um árabil rannsakað áhættuhegðun ungmenna og hafa þær vakið alþjóðlega eftirtekt.

Forvarnardagurinn er haldin að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg,Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Verkefnið er stutt af lyfjafyrirtækinu Actavis.

Vefsíða forvarnardagsins er www.forvarnardagur.is 

Myndir frá forvarnardeginum 2015 má sjá neðst á forsíðu www.isi.is.

 


Myndir með frétt