Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Evrópuleikarnir settir í kvöld

12.06.2015

Fyrstu Evrópuleikarnir verða settir í kvöld í Baku í Azerbaijan við hátíðlega athöfn.
Leikarnir munu standa frá 12. - 28. júní og eru keppnisdagarnir á leikunum sautján. Um 6.000 keppendur og 3.000 aðstoðarmenn munu taka þátt og keppt er í íþróttagreinum tuttugu alþjóðlegra sérsambanda. Alls er keppt í 31 íþróttagrein og þar af eru tuttugu og fimm Ólympískar greinar. Í tólf greinum eiga keppendur möguleika á að tryggja sér keppnisrétt á næstu Ólympíuleikum, í Ríó 2016, en alls eru keppnisgreinar leikanna 253.

Ísland á fulltrúa í níu íþróttagreinum, eða samtals nítján íþróttamenn. Í heildina eru þrjátíu og fimm í íslenska hópnum með fararstjórn, þjálfurum og öðru aðstoðarfólki, auk þess sem að forseti ÍSÍ, Lárus L. Blöndal, og framkvæmdastjóri ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttir, verða viðstödd leikana.

Íslenskir þátttakendur streyma nú í Evrópuleikaþorpið, en keppendur í karate, fimleikum og bogfimi eru mættir. Í gær var haldin athöfn þar sem allir íbúar voru boðnir velkomnir á leikana. Kyndillinn sem notaður verður til að tendra Evrópuleikaeldinn í kvöld var sýndur ásamt alþjóðlegum dansatriðum. Við athöfnina voru þau Telma Frímannsdóttir keppandi í karate og þjálfari hennar Gunnlaugur Sigurðsson. Keppendur í fimleikum fengu úthlutað æfingatíma á sama tíma svo þeir mættu ekki. Bogfimiþátttakendur mætti í gærkvöldi og Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og Líney Rut Halldórsdóttir mættu í dag og verða við setningarhátíðina í kvöld. Keppni í einstökum greinum dreifist yfir tímabil leikanna svo að ekki eru allir keppendur mættir strax.

Fánaberi íslenska hópsins við setningarhátíðina verður Thelma Rut Hermannsdóttir fimleikakona. Thelma Rut er sigursælasta fimleikakona landsins frá upphafi, en hún hefur orðið Íslandsmeistari kvenna í áhaldafimleikum sex sinnum alls. Thelma hefur m.a. tekið þátt á fernum Heimsmeistaramótum, fernum Smáþjóðaleikum, átta Evrópumótum og níu norður – Evrópumótum. Þess utan hefur Thelma tekið þátt í fjölda Norðurlanda- og boðsmóta frá því að hún var fyrst valin í landslið Íslands í fimleikum árið 2007. Thelma Rut er glæsilegur fulltrúi íþróttamanna sem ávallt hefur tileinkað sér heilbrigði og sinnt íþrótt sinni af þrautseigju og eljusemi.

Myndir með frétt