Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Íslenskir þátttakendur hittast

18.05.2015Á föstudaginn s.l. var fyrsti fundur íslenskra þátttakenda á Smáþjóðaleikunum. Leikarnir verða settir þann 1. júní og standa yfir til loka dags 6. júní n.k.

Nú hafa sérsambönd skilað inn keppendalistum fyrir leikana. Í körfuknattleik og blaki gilda aðrar reglur en hjá öðrum og hafa æfingahópar verið kynntir, en val á tólf keppendum af hvoru kyni í þeim greinum liggur ekki fyrir fyrr en skömmu fyrir leikana.

Áður en formleg dagskrá fundarins hófst var þátttakendum gefinn kostur á að máta fatnað frá Jako sem þeir munu klæðast meðan á leikunum stendur.

Á fundinum sem hófst eftir fatamátun var íslenska fararstjórnin kynnt. Garðar Svansson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ verður fararstjóri íslenska hópsins á leikunum. Ásamt honum verða þeir Guðmundur Ágúst Ingvarsson, sem einnig á sæti í framkvæmdastjórn ÍSÍ, og Örvar Ólafsson starfsmaður ÍSÍ. Þeim til halds og trausts hafa öll sérsambönd sem keppendur eiga á leikunum tilnefnt flokksstjóra sem verða málsvarar sinnar greinar og þátttakenda gagnvart fararstjórn ÍSÍ.

Á fundinum fór Óskar Örn Guðbrandsson verkefnastjóri Smáþjóðaleika 2015 yfir ýmis atriði er varða leikana og snerta íslenska þátttakendur. Garðar fararstjóri kynnti því næst aðsetur íslenskra þátttakenda meðan á leikunum stendur, en það verður í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Þar geta þátttakendur hist meðan á leikunum stendur og nýtt sér ýmsa þjónustu.

Að loknum fundarhöldum var boðið upp á hópefli sem reyndi á samvinnu og útsjónarsemi. Dagskránni lauk með léttum kvöldverði á Cafe easy.

Þessi fyrsti fundur þátttakenda heppnaðist afar vel og er það greinilegt að íslenskt íþróttafólk er spennt fyrir því að taka þátt í Smáþjóðaleikum á heimavelli.

Myndir með frétt