Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Einn mánuður til Smáþjóðaleika

01.05.2015

Í dag er einn mánuður þar til Smáþjóðaleikarnir verða settir á Íslandi. Leikarnir munu fara fram dagana 1. til 6. júní 2015 í Reykjavík og nágrenni. Að því tilefni er síðasta kynningarmynd Smáþjóðaleikanna 2015 birt, til viðbótar við þær ellefu myndir sem nú þegar hafa verið birtar úr myndaröðinni „Náttúrulegur kraftur“. Íþróttafólkið á myndinni stendur við falleg hús í miðbæ Reykjavíkur. Allt íþróttafólkið á myndinni hefur komið fram á myndum úr myndaröðinni „Náttúrulegur kraftur“ og má sjá myndirnar og viðtöl sem tekin voru við íþróttafólkið á heimasíðu leikanna.

Nú þegar að mánuður er til leika er í nógu að snúast hjá öllum þeim sem koma að leikunum með einhverjum hætti. Skipulagsnefnd hittist reglulega og fer yfir ýmis mál sem tengjast leikunum. Sjálfboðaliðar eru nú þegar farnir að starfa, meðal annars við að yfirfara verðlaunapeninga, telja barmmerki og penna, aðstoða aðra sjálfboðaliða við fatamátun, raða kössum í geymslur og ýmislegt fleira. Blossi, lukkudýr Smáþjóðaleikanna 2015, hefur verið iðinn við að koma fram, meðal annars í grunnþjálfun sjálfboðaliða og á hinum ýmsu íþróttaviðburðum. Fararstjórafundur fór fram í mars, þar sem aðalfararstjórar frá hverri smáþjóð funduðu og skoðuðu íþróttamannvirki leikanna.

Ýmisleg skemmtileg verkefni eru framundan fyrir skipuleggjendur og í mörgu að snúast.

Heimasíða leikanna er www.iceland2015.is

Fésbókarsíða leikanna er Smáþjóðaleikar 2015 - GSSE 2015

#Smáþjóðaleikarnir2015 #GSSE2015 #Blossi