Heiðranir á ársþingi LSÍ
Ársþing Lyftingasambands Íslands var haldið 7. mars síðastliðinn í fundasal Lionshreyfingarinnar í Sóltúni 20 í Reykjavík. Formaður setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna, en þingfulltrúar voru 14 frá sjö aðildarfélögum af ellefu. Formaður flutti skýrslu stjórnar og ritari stjórnar gerði grein fyrir reikningum, en í ávarpi formanns var gjaldkera sambandsins, Elísabetar Sóleyjar Stefánsdóttur, minnst en hún lést nýverið eftir harða baráttu við krabbamein.
Sambandið var rekið með hagnaði á síðasta starfsári og náðu reikningar yfir 16 mánaða timabil, en bókhaldsárið var fært yfir í almanaksárið á síðasta ársþingi sambandsins. Afreksstefna LSÍ var kynnt á þinginu og samþykkt, en auk þess gerð breying á lögum sambandsins þar sem kveðið er á um að afreksstefnan skuli endurskoðuð og rædd á ársþingum.
Lárus Páll lýsti því yfir að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér til endurskjörs og var hann sæmdur Gullmerki ÍSÍ fyrir störf sín. Þá voru einnig Guðmundur Helgi Helgason og Sigmundur Davíðsson heiðraðir með Silfurmerki ÍSÍ á þinginu.
Nýr formaður var kjörinn Ásgeir Bjarnason, en aðrir í stjórn eru Árni Björn Kristjánsson, Hildur Grétarsdóttir, Ingi Gunnar Ólafsson og Stefán Ragnar Jónsson. Í varastjórn voru kosnir Lárus Páll Pálsson, Arnar Tuliníus, Grétar Skúli Gunnarsson og Guðmundur Már Þorvarðarson.
Sigríður Jónsdóttir ritari ÍSÍ sótti þingið fyrir hönd ÍSÍ og var jafnframt þingforseti.
Á myndinni eru frá vinstri Sigmundur Davíðsson, Lárus Páll Pálsson og Guðmundur Helgi Helgason, við afhendingu heiðursviðurkenninga ÍSÍ.