Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Heimsókn til USVS og USÚ

11.09.2014

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu ÍSÍ er Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ á ferðalagi um landið, ásamt framkvæmdastjóra ÍSÍ og föruneyti.  Í dag, 11. september, var fundað með Birgi Erni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra USVS, og Vigfúsi Þór Hróbjartssyni, fulltrúa frá Umf. Kötlu, á Halldórskaffi í Vík.  Birgir Örn leiddi síðan skoðunarferð um íþróttamannvirki á staðnum, en í Vík er meðal annars níu holu golfvöllur, sundlaug, frjálsíþróttavöllur, knattspyrnuvöllur, íþróttahús og sparkvöllur. 

Áfram var haldið til Hafnar í Hornafirði þar sem Matthildur Ásmundardóttir, formaður USÚ, og Gunnar Ingi Valgeirsson, forstöðumaður íþróttamannvirkja, tóku á móti hópnum og sýndu glæsileg íþróttamannvirki í sveitarfélaginu.  Í kvöld var fundað í Sindrahúsinu með Matthildi, Gunnari Inga og Ásgrími Ingólfssyni, formanni Umf. Sindra, þar sem málefni íþrótta á svæðinu voru rædd sem og samstarf ÍSÍ, USÚ og aðildarfélaga þess.  Starfsemi Umf. Sindra er viðamikil enda um stórt fjölgreinafélag að ræða, sem heldur úti öflugu íþróttastarfi í níu þróttagreinum, en staðsetning félagsins kallar á kostnaðarsöm ferðalög til keppni.

Á morgun verður ekið um Austfirði og Fljótsdalshérað, en ferðin hefst snemma morguns á Djúpavogi, á starfssvæði Umf. Neista.