Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Göngum í skólann - setningarhátíð

10.09.2014Göngum í skólann var sett í 8. skipti í morgun. Í þetta sinn fór setningarhátíðin fram í Laugarnesskóla í Reykjavík.

Sigríður Heiða Baragadóttir, skólastjóri Laugarnesskóla byrjaði á því að bjóða nemendur og gesti velkomna. Nemendur Laugarnesskóla sungu skólasönginn fyrir gesti. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri fluttu stutt ávörp og hvöttu þau nemendur til þess að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta á leið sinni í skólann. Þá hvöttu þeir ef fremur nemendur til þess að fá foreldra sína til að ganga með sér. Að því loknu kom Solla stirða í heimsókn og tók nokkrar léttar æfingar í morgunsárið auk þess að láta borgarstjóra dansa ballett við mikla kátínu nemenda jafnt sem starfsfólks (sjá meðfylgjandi mynd).

Verkefnið var svo sett með viðeigandi hætti þegar nemendur, starfsfólk, aðstandendur verkefnisins, Illugi og Dagur fóru í stuttan göngutúr.

Í ár tekur Ísland þátt í áttunda skipti í alþjóðlega verkefninu Göngum í skólann. Verkefnið hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttaka farið stöðugt vaxandi. Hér á landi fer skráning skóla mjög vel af stað, enn geta skólar bæst í hópinn. Á alþjóðavísu er Göngum í skólann mánuðurinn í október og Alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn er 8. október. Vegna birtu og veðuraðstæðna fer Göngum í skólann verkefnið fram hér á Íslandi í septembermánuði og því lýkur á Alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 8. október n.k.

Meginmarkmið Göngum í skólann eru að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla. Um leið er ætlunin að: Hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar. Kenna reglur um öryggi á göngu og á hjóli. Draga úr umferð við skóla: Draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum. Betra og hreinna loft ásamt öruggari og friðsælli götum og hverfi. Stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál: Hversu ,,gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf. Samfélagsvitund eykst. Hvetja til heilbrigðs lífsstíls fyrir alla fjölskylduna: Hreyfing vinnur gegn hjartasjúkdómum, offitu og sykursýki II og stuðlar að streitulosun, betri sjálfsmynd, o.fl.

Þeir aðilar sem að verkefninu standa hérlendis eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, embætti Landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Umferðastofa og Landssamtökin Heimili og skóli.

Inn á facebook síðu Samgöngustofu má sjá skemmtilegt video af því þegar nemendur Laugarnesskóla syngja skólasöngin og taka nokkrar léttar æfingar með Sollu stirðu.