Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
18

400 dagar í Smáþjóðaleikana

29.04.2014

Þann 27. apríl síðastliðinn voru 400 dagar þar til Smáþjóðaleikarnir verða settir á Íslandi. Leikarnir munu fara fram dagana 1. til 6. júní 2015 í Reykjavík. 

Smáþjóðaleikarnir er íþróttakeppni þar sem smáþjóðir etja kappi. Hugmyndin er sú að slíkir leikar efli anda og hugsjón ólympíuhreyfingarinnar og treysti vináttubönd þjóðanna sem keppa.

Smáþjóðaleikarnir 2015 eru auglýstir á fallegum veggspjöldum af íþróttafólki í íslenskri náttúru. Við Íslendingar erum hvað stoltust af náttúru Íslands og íþróttafólkinu sem við eigum. Við búum yfir stórfenglegri náttúru sem er í senn einstaklega falleg og kröftug og glímu okkar við náttúruöflin þekkja allir vel. Hugmyndin á bak við það að blanda saman náttúrumyndum og íþróttafólki er sú að sýna sameiginlegan kraft íslensku náttúrunnar og íþróttafólksins. Íþróttafólkið okkar býr yfir miklum krafti sem brýst út í æfingum og íþróttakeppnum og glímunni við andstæðinginn. Íþróttamyndirnar fanga augað og færa íþróttagreinarnar á óvenjulega staði íslenskrar náttúru en á sama tíma þá fegurstu. Náttúrumyndirnar hafa einnig beina skírskotun í umhverfisvæna stefnu leikanna og tengingu í merki leikanna sem sýnir eldfjall, hálendisöldu, grænan gróður, haf og ís.

Tvær myndir hafa þegar verið birtar, en á þeim sitja fyrir Rafn Kumar, sem spilar tennis í Landmannalaugum, og Arna Stefanía sem keppir í frjálsum íþróttum og hoppar yfir hver norðan við Kröflu. Í dag munum við birta tvær myndir til viðbótar, þar glímir Þormóður júdókappi í mosavöxnu hrauninu við Kirkjubæjarklaustur og Sara Rún spilar körfuknattleik við Svartafoss. Einnig birtum við persónulegri umfjöllun um íþróttafólkið sem situr fyrir á myndunum. Á hundrað daga fresti fram að leikum munu tvær myndir verða birtar í senn ásamt umfjöllun um íþróttafólkið. Mikil spenna ríkir fyrir myndunum, hverjir sitja fyrir og hvaða íslensku náttúrufyrirbæri ber fyrir sjónir, enda einstaklega fallegar myndir.

Heimasíða leikanna 2015 er www.iceland2015.is og fésbókarsíða leikanna er www.facebook.com/gsse2015

Níu þjóðir taka þátt í Smáþjóðaleikunum í ellefu keppnisgreinum. Leikarnir á næsta ári eru þeir sextándu sem haldnir eru, en þeir fara fram á tveggja ára fresti í einu af þátttökulöndunum. Leikarnir verða umfangsmeiri með hverju skiptinu og þátttakendum, gestum og sjálfboðaliðum fer stöðugt fjölgandi. Skipulagsnefnd leikanna gerir ráð fyrir um 2.000 þátttakendum á leikunum, þar af 1.500 erlendum gestum, og um 1.000 sjálfboðaliðum.

Myndir með frétt