Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Að Göngum í skólann 2013 loknu

21.10.2013

Göngum í skólann verkefninu lauk formlega hér á landi á Alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 2. október s.l. Markmið verkefnisins eru að hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ferðast með virkum og öruggum hætti í skólann. Sem fyrr er Göngum í skólann á Íslandi samstarfsverkefni nokkurra aðila. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands leiðir það áfram í samstarfi við Samgöngustofu, Embætti landlæknis, Heimili og skóla - landssamtök foreldra, mennta- og menningarmálaráðuneytið og Slysavarnafélagið Landsbjörgu.

Meginmarkmið Göngum í skólann eru að hvetja nemendur, starfsmenn skóla og foreldra til að ganga, hjóla eða fara á annan virkan hátt til og frá skóla. Um leið er ætlunin að hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar. Kenna reglur um öryggi á göngu og á hjóli. Draga úr umferð við skóla. Draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum. Stuðla að betra og hreinna lofti ásamt öruggari og friðsælli götum og hverfum. Stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál: Hversu ,,gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf. Auka samfélagsvitund. Hvetja til heilbrigðs lífsstíls fyrir alla fjölskylduna. Hreyfing vinnur gegn hjartasjúkdómum, offitu og sykursýki II og stuðlar að streitulosun, betri sjálfsmynd, o.fl.

Í ár var þátttökumet slegið þegar 64 skólar víðs vegar af landinu skráðu sig til leiks. Svipmyndir frá skólunum má sjá á forsíðu heimasíðu ÍSÍ. Jafnframt má sjá umfjöllun og svipmyndir frá þátttökuskólum á heimasíðu Göngum í skólann, www.gongumiskolann.is sjá hér.

Með fréttinni fylgir mynd af börnum í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði er tóku þátt í Göngum í skólann og enduðu átakið á Alþjóðlega Göngum í skólann deginum með því að taka þátt í Norræna skólahlaupinu.