Ólympíuleikarnir 2020 verða í Tokyo
Alþjóðaólympíunefndin heldur sitt 125. ársþing þessa dagana í Buenos Aires í Argentínu.
Á laugardaginn fór fram kosning um gestgjafa Ólympíuleikanna 2020, en þrjár borgir voru þar í kjöri.
Tokyo í Japan varð fyrir valinu á undan Istanbul og Madrid. Hlaut Tokyo 60 atkvæði í seinni umferð kosninga á móti 35 atkvæðum Istanbul. Madrid hafði fallið út í fyrri umferðinni, en borg þarf að hljóta meirihluta atkvæða til að verða valin sem gestgjafi, og því þarf stundum nokkrar umferðir til að velja sigurvegara.
Tokyo hefur áður haldið leikana, en það var árið 1964. Ísland átti fjóra keppendur á þeim leikum, Guðmund Gíslason og Hrafnhildi Guðmundsdóttur sem kepptu í sundi og Valbjörn Þorláksson og Jón Ólafsson sem kepptu í frjálsíþróttum.
Í gær var kosið um keppnisgreinar á leikunum 2020 og 2024. 25 kjarnagreinar höfðu verið valdar, en velja átti eina grein til viðbótar og voru þrjár í kjöri. Grísk-rómversk glíma var valin að nýju sem kjarnagrein, en hafnabolti/mjúkbolti og skvass voru einnig í kjöri.
Grísk-rómversk glíma er ein af þeim greinum sem hafa alltaf verið með á Ólympíuleikum, bæði í nútímanum sem til forna. Alþjóðaólympíunefndin þurfti fyrir stuttu síðan að velja eina grein til að fella út sem kjarnagrein. Var það hugsað til að gefa öðrum greinum möguleika á að vera valdar inn á leikana. Glíman varð sú grein sem var felld út, en hefur á stuttum tíma náð að breyta umgjörð sinni og með því að sigra þessa kosningu er ljóst að enn erfiðara verður fyrir nýjar greinar að komast á dagskrá Ólympíuleikanna.
Á morgun verður kjörinn nýr forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, en Jacques Rogge mun þá láta af embætti.