Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Sumarleikar Ólympíuhátíðar Evrópuæskunnar framundan

10.07.2013

Sumarleikar Ólympíuhátíðar Evrópuæskunnar - EYOF 2013 hefjast 14. júlí næstkomandi í Utrecht í Hollandi.  ÍSÍ sendir 19 ungmenni til hátíðarinnar til keppni í fimm íþróttagreinum, þ.e. fimleikum, frjálsíþróttum, júdó, sundi og tennis.  Þátttakendur á sumarleikunum að þessu sinni verða hátt á þriðja þúsund frá 49 Evrópuþjóðum en alls verður keppt í níu íþróttagreinum á leikunum. 

Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar hefur verið haldin annað hvert ár í ríflega 20 ár, bæði sumar- og vetrarleikar þar sem efnileg ungmenni á aldursbilinu 14-18 ár fá tækifæri til að keppa við sína jafnaldra og öðlast þannig reynslu í alþjóðlegri keppni.  Þátttaka í hátíðinni snýst ekki aðeins um keppni heldur einnig um eflingu góðra gilda, vináttu og háttvísi í gegnum íþróttirnar.

Undirbúningsfundur með þátttakendum, flokksstjórum, þjálfurum, foreldrum og forráðamönnum var haldinn í kvöld í Íþróttamiðstöðinni þar sem farið var helstu mál er snúa að þátttöku Íslands í hátíðinni.  Einnig var þátttakendum afhentur fatnaður frá ÍSÍ.

Fararstjórn verður í höndum þeirra Höllu Kjartansdóttur skrifstofustjóra ÍSÍ og Andra Stefánssonar sviðsstjóra Afreks- og ólympíusviðs ÍSÍ en að auki fer Thelma Dögg Ragnarsdóttir sjúkraþjálfari á vegum ÍSÍ.   Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, mun verða viðstaddur setningarhátíð leikanna og fyrsta keppnisdag þeirra en Líney Rut Halldórsdóttir verður viðstödd alla leikana þar sem hún er meðlimur í nefnd Evrópusambands ólympíunefnda, EYOF Commission, sem hefur eftirlit með undirbúningi og framkvæmd leikanna. Upplýsingar um þátttakendur er að finna hér.