Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Fundur um þjálfaramenntun með LH og FSu

15.03.2013

Fundur um þjálfaramenntun var haldinn á Selfossi, Hestamiðstöðinni Votmúla fimmtudaginn 14. mars síðastliðinn. Fundinn sátu fulltrúar úr stjórn Landssambands hestamanna, forystufólk á Hestabraut Fjölbrautaskóla Suðurlands og Viðar Sigurjónsson fyrir hönd Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Rætt var um þjálfara-/kennaranám í hestaíþróttum og það menntakerfi sem til er innan íþróttahreyfingarinnar í þessum efnum, þ.e. þjálfaramenntun ÍSÍ.  Hestabraut hefur lengi verið til við FSu og rikir vilji til samstarfs við ÍSÍ um námsframboð þar og gagnkvæmt mat á náminu í þessum fræðum.  LH hefur lengi viljað koma á fót námskeiðum og fræðslu í tengslum við stefnu ÍSÍ í þessum fræðum og telur lið í því vera það nám sem kennt er í FSu, verði það aðlagað ÍSÍ menntuninni.  Mikill einhugur ríkti á fundinum um samstarf í þessum efnum og voru fundarmenn sammála um ágæti þess.  Stefnt er að því að FSu kenni sérgreinaþátt námsins samkvæmt menntakerfi ÍSÍ og að almennir þættir menntunarinnar verði kenndir hjá ÍSÍ og/eða FSu.  Fulltrúar LH voru þau Haraldur Þórarinsson formaður LH, Sigurður Emil Ævarsson varaformaður, Oddur Hafsteinsson ritari, Sigrún Þórðardóttir gjaldkeri, Þorvarður Helgason, Andrea Margrét Þorvaldsdóttir,  Helga B. Helgadóttir og Stefán G. Ármannsson.  Fulltrúar FSu á fundinum voru þær Sigríður Pjetursdóttir kennslustjóri á Hestaíþróttabraut, Freyja Hilmarsdóttir og Sissel Tveten.