Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
13

Jólakveðja frá forseta ÍSÍ

18.12.2012

Nýliðin helgi var ánægjuleg íþróttahelgi fyrir undirritaðan, skemmtilegir viðburðir sem þó gerðu í sjálfu sér ekki annað en að endurspegla hefðbundna viðburði í íþróttahreyfingunni hvaða helgi sem er allt árið um kring.  Þetta eru þó sumir óhefðbundnir viðburðir á aðventunni sem eru aðeins örlítið sýnishorn af þeim ótrúlega fjölda íþróttaæfinga og keppni, funda og viðburða sem gera mannlíf okkar í senn fjölbreyttara og heilbrigðara.

Á laugardeginum heimsótti ég metnaðarfullt ársþing Lyftingasambands Íslands þar sem þróttmikil stjórn hefur fjölgað iðkendum á skömmum tíma um mörghundruð prósent, og voru af elju að ræða frekari sókn til afreka og útbreiðslu.  Síðar um daginn var skautasýning á vegum Íþróttafélagsins Aspar og Íþróttasambands fatlaðra þar sem keppendur okkar sem taka munu þátt í Special Olympics leikunum í Suður-Kóreu sýndu listir sínar ásamt öðrum glæsilegum iðkendum í skautaíþróttum hjá Íþróttafélaginu Ösp.  Sannarlega skemmtileg sýning sem framkallaði geislandi gleði hjá þátttakendum jafnt sem áhorfendum, og var öllum sem að sýningunni stóðu til mikils sóma.

Á sunnudeginum var ekki síður eftirminnilegt að vera viðstaddur 100. Skjaldarglímu Ármanns og fá þar að afhenda hin merku sigurverðlaun, ásamt því að fá að taka þátt í heiðrun skjaldarhafa fyrri ára, allt frá sigurvegara ársins 1947.  Mjög vel var staðið að keppni og umgjörð allri þar sem þessi sögulegi og menningarlegi viðburður markaði eitthundraðasta skiptið sem keppt er um þennan verðlaunagrip daginn eftir að Glímufélagið Ármann fagnaði 124 ára afmæli sínu.  Í kjölfar keppninnar var haldin uppskeruhátíð félagsins þar sem í senn voru heiðraðir besta og efnilegasta afreksfólk hverrar íþróttagreinar félagsins.  Til hamingju Ármenningar.

Í kjölfarið var haldið til Bessastaða þar sem Forseti Íslands – sem vel að merkja hafði jafnframt verið viðstaddur Skjaldarglímu Ármanns – veitti stoltum og glæsilegum ungmennum viðurkenningar fyrir sigur í ratleik Forvarnardagsins frá því fyrr í vetur.  Forvarnardagurinn er átak sem ýmsir taka sem sjálfsögðum hlut, en á að mínu mati ríkan þátt í þeim árangri sem náðst hefur í tölfræðilegum árangri gegn skugga tóbaksreykinga, áfengis- og vímuefnaneyslu með því að vekja einu sinni á ári athygli á einföldum skilaboðum, meðal annars á mikilvægi starfsemi íþrótta- og æskulýðssamtaka.  Enginn skyldi ætla að slíkur árangur í forvörnum náist sjálfkrafa.  Forseti Íslands á heiður skilinn fyrir þrautseigju sína gagnvart viðfangsefninu, og hefur verið heiður að taka þátt í samstarfinu  í nafni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands þar sem sýnt hefur verið fram á að skipuleg iðkun ungmenna í íþróttum er eitt af lykilatriðum forvarna gegn vágestum vímuefnaneyslu.

Af þessu tilefni er jafnframt tilefni til þess að árétta það að Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson er jafnframt verndari Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands – líkt og Ungmennafélags Íslands og Skátahreyfingarinnar sem starfa með okkur að Forvarnardeginum.  Forseti Íslands hefur reynst íþróttahreyfingunni góður verndari, og hefur dyggilega stutt við bakið á okkar íþróttafólki hvar í hreyfingunni sem það starfar.  Fáir hafa verið jafn duglegir að mæta á viðburði, hvetja keppendur til dáða og tala máli íþróttahreyfingarinna.   Fyrir það erum við afar þakklát, og sendum Forseta Íslands okkar bestu kveðjur og þakkir.

Ég vil senda öllum innan og utan íþróttahreyfingarinnar bestu jólakveðjur, og óska öllum farsæls nýs árs við lok 100 ára afmælisárs ÍSÍ.  Sérstaklega vil ég að þessu sinni einnig senda kveðjur til allra okkar keppenda, þjálfara og annarra aðila íþróttahreyfingarinnar sem starfa eða iðka íþrótt sína á erlendri grundu – og að við gleymum ekki hversu góðir sendiherrar þau eru fyrir okkar þjóð.  Ég hygg að fáir geri sér grein fyrir þeirri athygli og þeim mikla fjölda fjölmiðlaviðtala sem afreksfólk okkar erlendis mætir í, og hversu góð landkynning þau eru fyrir íslenskt samfélag.  Munum eftir þeim á jólunum.

Ólafur E. Rafnsson,
Forseti ÍSÍ.