Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

London 2012 - Ólympíulaufið

14.12.2012Ólympíueldurinn er eitt sterkasta tákn Ólympíuleika og er oft mikil saga tengd honum.  Þannig er hann tendraður á sama hátt og á Ólympíuleikunum til forna þar sem sólarljósið er nýtt til að kveikja á kyndli í hinni fornu borg Olympiu í Grikklandi.

Þar næst er hlaupið með kyndil frá Olympiu til þess staðar þar sem leikarnir fara fram og hafa kyndilhlaupin í gegnum tíðina farið víða og slegið mörg met.  Á setningarhátíð Ólympíuleika er einn hápunkturinn þegar hlaupið er með kyndilinn inná leikvanginn og Ólympíueldurinn er tendraður.  Hver gestgjafi reynir að útfæra Ólympíueldinn og tendrun hans á nýjan hátt og vekja þannig upp eftirvæntingu og aðdáun heimsbyggðarinnar.

Í London var tendrun Ólympíueldsins merkileg á margan hátt.  Eldurinn var að þessu sinni tendraður á miðjum Ólympíuleikvanginum og var eingöngu sjáanlegur á sjálfum leikvanginum.  Hann var samsettur úr 204 „laufblöðum" þar sem eldurinn logaði og þegar laufblöðin voru sett saman myndaðist stór kyndill eða skál fyrir Ólympíueldinn.

Í fjölmiðlum síðasta sumar kom fram að hver þjóð fengi að eiga eitt laufblað og var það nú í byrjun desember að vegleg sending barst frá London með sjálfu laufinu.  Er þetta glæsileg smíði þar sem nafn Íslands er meðal annars grafið í laufið og það merkt sem eitt af 204 laufum leikanna.

Íþróttafréttir RUV fjölluðu um laufið í fréttum sínum og má sjá þá frétt hér, en á meðfylgjandi mynd eru Ólafur E. Rafnsson, forseti ÍSÍ og Líney R. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ við laufið.