Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Kaflaskil í upplýsingastreymi

28.09.2012

Það er vert að óska íþróttahreyfingunni á Íslandi til hamingju með nýja heimasíðu ÍSÍ.  Það er von mín og vissa að þessi kaflaskil leiði til bætts upplýsingastreymis innan hreyfingarinnar, meiri og betri fréttaflutnings til almennings og síðast en ekki síst betri þjónustu við sambandsaðila, aðildarfélög, einstaklinga og aðra þá sem íþróttahreyfingin sinnir.

Það er markviss stefna Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands að stórauka upplýsingaflæði og bæta samskiptaferla í komandi framtíð.  Skilgreina þarf markhópa og hagsmunaaðila hreyfingarinnar og setja upp skilvirkar áætlanir um tíðni, samskiptatækni og efnisinnihald samskipta við þá aðila.  Það er sjálfstætt markmið okkar að efla ásýnd og bæta ímynd íþróttahreyfingarinnar með auknu upplýsingastreymi og betri samskiptum.

Gott dæmi eru hinir takmarkalausu möguleikar hinna tiltölulega nýju samskiptamiðla, á borð við Facebook, sem brýnt er að allar starfseiningar innan íþróttahreyfingarinnar tileinki sér notkun á – ekki síst þar sem þar er að finna stærsta og mikilvægasta markhóp íþróttahreyfingarinnar, unga fólkið okkar.  Samskiptamiðlar í einhverri mynd eru bæði nútíðin og framtíðin, og verðum við ávallt að gæta þess að láta ekki of mikla íhaldssemi ráða för að því leyti.

Veraldarvefurinn hefur skapað möguleika sem forverar okkar hefðu líklega öfundað okkur mikið af – okkar eigin fjölmiðla sem við getum nýtt með mjög skilvirkum og hagkvæmum hætti ef rétt er staðið að málum.  Þetta er vert að hafa í huga þegar skortur á gagnrýni þriðja aðila – hinna almennu fjölmiðla – er höfð á lofti.  Við þurfum að vera dugleg að tileinka okkur eigin miðla – við höfum nú aldeilis tæknina til þess.  Dæmi um þetta er RSS fréttaflutningur í gegnum heimasíðu ÍSÍ, sem getur sannarlega vakið athygli á smærri sambandsaðilum og íþróttagreinum, sem fá aukið streymi heimsókna í gegnum miðlæga heimasíðu íþróttahreyfingarinnar.

Á heimasíðu ÍSÍ er að finna gríðarlega mikið magn upplýsinga og frétta, undirvefja, tengla og ýmissa samskiptaupplýsinga.  Ráðgert er að auka stöðugt við þá þjónustu sem er í boði, og gera flæði samskipta stöðugt gagnvirkara og aðgengilegra.
Ég býð ykkur velkomin í þetta nýja anddyri upplýsingaheims íþrótta á Íslandi, og vona að þið dveljið þar um stund – og leyfið ykkur jafnvel að ferðast um óravíddir íþróttahéraða og sérsambanda íþróttahreyfingarinnar.

Ég vil þakka öllum þeim sem komu að endurbótum og gerð heimasíðu ÍSÍ.  Njótið vel.

Ólafur E. Rafnsson,
Forseti ÍSÍ