Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.09.2024 - 12.09.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
11

Afreksstyrkir ÍSÍ árið 2011 námu um 88 m.kr.

12.12.2011

Í upphafi ársins 2011 var úthlutað rúmlega 55 m.kr. úr Afrekssjóði ÍSÍ og Styrktarsjóði ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna.  Síðar á vormánuðum úthlutaði Framkvæmdastjórn ÍSÍ rúmlega 5 m.kr. úr Sjóði Ólympíufjölskyldu ÍSÍ, en Ólympíufjölskyldu ÍSÍ skipa fjögur fyrirtæki á Íslandi sem eru Íslandsbanki, Sjóvá, Icelandair og Valitor.  Styrkja þau ÍSÍ með ákveðnum upphæðum á hverju ári og er það fjármagn nýtt í fjölmörg verkefni á vegum ÍSÍ s.s. þátttöku í Smáþjóðaleikum og Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar.  Sjóður Ólympíufjölskyldu ÍSÍ er eitt þessara verkefna og er hann hugsaður til að létta örlítið undir afreksstarfi sambandsaðila.

Um 9 m.kr. var úthlutað úr Afrekssjóði ÍSÍ síðar á árinu og var þar um að ræða 3 m.kr. vegna A-liðs karla í handknattleik og 5,5 m.kr. vegna A-liðs kvenna og þátttöku liðsins á HM.  Alls voru styrkir Afrekssjóðs til HSÍ 17 m.kr. á árinu 2011.

Ólympiusamhjálpin hefur einnig styrkt íslenskar afreksíþróttir á árinu.  Sérsambönd hafa hlotið styrki vegna 7 einstaklinga sem eru að undirbúa sig fyrir þátttöku á Ólympíuleikunum í London og er um að ræða 1.000 Bandaríkjadali á mánuðui fram að leikum, auk eins ferðstyrks á tímabilinu sem getur numið tæplega kr. 600 þús.  Þá hlaut A-lið karla í handknattleik styrk frá Ólympíusamhjálpinni og nam hann 70.000 bandaríkjadölum á árinu 2011.  Heildarframlag Ólympíusamhjálparinnar til þessara sérsambanda eru tæpar 19 m.kr. á árinu 2011.

Afrekssjóður ÍSÍ styrkir að auki fagteymisþjónustu vegna einstaklinga á afreksstyrk.  Um er að ræða skilgreindan kostnað við líkamsmælingar, þjónustu lækna og sjúkraþjálfara, sálfræðinga, nuddara og næringarráðgjöf, en einnig fræðslu og fyrirlestra fyrir afreksíþróttafólk okkar.  

Þessir styrkir duga samt skammt í erfiðum fjárhag sérsambanda ÍSÍ.  Þegar umsóknum var skilað inn í Afrekssjóð ÍSÍ fyrir árið 2011 nam kostnaðaráætlun þeirra verkefna um 366 m.kr.  Kostnaðaráætlun verkefna í Styrktarsjóði ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna nam um 166 m.kr.  Eru þetta eingöngu tölur vegna þeirra verkefna sem sótt var um styrk fyrir, en ekki sækja sérsambönd um styrki til ÍSÍ fyrir öll sín verkefni, enda ljóst að sjóðir ÍSÍ duga engan vegin til að standa undir þeim öllum.  Það má því áætla að verið sé að styrkja 10-15% af kostnaði verkefna á sviði afreksíþrótta sérsambanda ÍSÍ.  

Þess má geta að framlag ríkisins til þessara sjóða var 24,7 m.kr. til Afrekssjóðs ÍSÍ.  Styrktarsjóður ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna er fjármagnaður af rekstrarframlagi ríkisins til ÍSÍ, en heildarúthlutun sjóðsins er háð ákvörðun framkvæmdastjórnar ÍSÍ, þ.e. hversu há upphæð fari í úthlutun.  Framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur ekki viljað skerða þá upphæð sem fer í úthlutun til sérsambanda, þótt að framlag ríkisins hafi verið skorið niður á undanförnum árum.

Í heild eru Afreksstyrkir ÍSÍ til sérsambanda á árinu 2011 um 88 m.kr.  Yfirlit yfir úthlutun styrkja á árinu má finna hér á heimasíðu ÍSÍ.

Umsóknarfrestur sérsambanda og íþróttanefnda ÍSÍ vegna Afreksstyrkja ársins 2012 er nú liðinn og er verið að vinna úr umsóknum.  Framlag ríkisins til Afrekssjóðs ÍSÍ fyrir árið 2012 nemur 34,7 m.kr. og verður úthlutað úr sjóðnum í janúar 2012.