Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Almannaheillafélög - Almannaheillaskrá

Í apríl 2021 voru samþykkt lög um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla): Lög 32/2021.  ÍSÍ hvetur forystu íþrótta- og ungmennafélaga í landinu til að skrá félögin á almannaheillaskrá og eiga þannig möguleika á að nýta sér þann skattalega hvata sem skráningin getur gefið. 

Íþrótta- og ungmennafélög í landinu geta skráð sig á almannaheillaskrá og þannig nýtt frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna gjafa og framlaga til lögaðila sem uppfylla tiltekin skilyrði og eru í almannaheillaskrá sem Skatturinn heldur.

Hér fyrir neðan má finna leiðbeinandi upplýsingar, sem unnar voru í samráði við Skattinn, varðandi skráningu íþróttafélaga á Almannaheillaskrá RSK og skráningu á almannaheillafélagi.

Íþrótta- og ungmennafélög þurfa einungis að huga að skráningu í Almannaheillaskrá þar sem þau teljast nú þegar almannaheillafélög. Ekki þarf að breyta lögum félaga og hvorki þarf að greiða nýskráningargjald né breytingagjald við skráningu í Almannaheillaskrá.

Skráning íþrótta- og ungmennafélaga í Almannaheillaskrá fer fram í gegnum innskráningu á heimasvæði viðkomandi félags á þjónustuvef skattsins (skattur.is) og er skráningin tiltölulega einföld, sjá leiðbeiningar hér fyrir neðan. 


Skráningin er ætluð óhagnaðardrifnum félögum og stofnunum sem vilja að styrktaraðilar geti nýtt framlög sín til lækkunar á tekjuskatts- og útsvarsstofni sínum. Frádráttur einstaklinga getur verið á bilinu 10-350 þúsund krónur á hverju ári og framlög koma til lækkunar á útsvars- og tekjustofni. Frádráttur fyrirtækja getur numið allt að 1,5% af rekstrartekjum auk þess sem fyrirtæki geta dregið frá 1,5% vegna aðgerða eða framlögum til aðgerða, sbr. skógrækt og landgræðsla, sem stuðla að kolefnajöfnun, samtals 3%. 

Skilyrði fyrir frádrætti hjá gefendum er að móttakandi sé skráður á almannaheillaskrá hjá Skattinum á því tímamarki sem gjöf er afhent eða framlag veitt og gildir frádráttarheimildin um framlög sem berast frá og með þeim degi sem sótt var um skráningu á almannaheillaskránna. Á heimasíðu Skattsins er að finna uppfærða skrá yfir lögaðila sem skráðir eru á almannaheillaskrá. 

Hver er ávinningurinn af skráningu? 

Gjafir og framlög upp að tilteknu marki, til almannaheillafélaga sem hafa fengið staðfesta skráningu í almannaheillaskrá hjá fyrirtækjaskrá Skattsins á því tímamarki þegar gjöf er afhent eða framlag er veitt og upplýsingar um fjárhæð fjárframlags hafi verið mótteknar frá viðtakanda til áritunar á skattframtal, koma til lækkunar á tekjuskatts- og útsvarsstofni hjá einstaklingum og til frádráttar rekstrartekjum rekstraraðila. Skatturinn móttekur upplýsingar um framlög frá viðurkenndum aðilum til áritunar. Frádráttarbær framlög  einstaklinga geta samtals orðið 10-350 þúsund krónur á almanaksári, hjóna og sambúðarfólks alls 700 þúsund krónur, og kemur til lækkunar á útsvars- og tekjuskattsstofni (sem tekjuskattur og útsvar er síða reiknað af) en er ekki millifæranlegur og ber því að halda framlögum hvers einstaklings aðgreindum. Frádrátturinn reiknast þannig að ársframlag til einnar deildar íþróttafélags kr. 12.000 og kr. 240.000 til annarrar deildar íþróttafélaga eða til annars almannaheillafélags samtals kr. 252.000 frádrátt. 

Frádráttur rekstraraðila getur numið 1,5 % af rekstrartekjum á því ári sem gjöf er afhent eða framlag er veitt. Jafnframt er rekstraraðila heimilt að færa til frádráttar 1,5% af rekstrartekjum vegna framlaga til aðgerða sem stuðla eiga að kolefnisjöfnun, s.s. aðgerða í rekstri til kolefnisjöfnunar, sem og fjárframlög til skógræktar, uppgræðslustarfa og endurheimtar votlendis o.s.frv.  

Hjá fyrirtækjaskrá Skattsins þurfa að liggja fyrir lög eða samþykktir viðkomandi íþróttafélags þar sem m.a. er gerð grein fyrir tilgangi starfseminnar, meðferð eigna við slit og eftir atvikum starfsemi deilda. 

Þá þarf bókhald og ársuppgjör að bera með sér fjárhæð gjafa og framlaga ásamt því hvernig fjármunum hefur verið ráðstafað til almannaheilla. Ráðstafa þarf framlögum innan skamms tíma til þeirra málefna sem samþykktir segja til um þ.a. ekki komi til mikillar sjóðasöfnunar á milli ára. Standa þarf skil á ársreikningum fyrir 31. maí ár hvert. 

Félagsgjöld eða greiðslur til almannaheillafélags fyrir vörur og þjónustu skapa ekki rétt til skattfrádráttar. 

Móttakendur gjafa og framlaga, sem skráðir eru á sérstaka almannaheillaskrá, þurfa að gefa út kvittun við móttöku þar sem m.a. kemur fram nafn og kennitala gefanda og fjárhæð framlags. Að almanaksári loknu þarf móttakandi að taka saman upplýsingum um fjárhæð gjafa og framlaga hvers gefanda og skila þessum upplýsingum til Skattsins samhliða öðrum árlegum gagnaskilum fyrir 20. janúar ár hvert. Á grundvelli gagnaskilanna verður frádráttur áritaður á framtal gefenda. 

Endurnýja skal skráningu á almannaheillaskrá árlega fyrir hvert byrjað almanaksár ekki síðar en 15. febrúar ár hvert. Endurskráning skal fara fram í fyrsta sinn fyrir 15. febrúar 2023. 

Skilyrði fyrir frádrætti hjá gefendum er að móttakandi sé skráður á almannaheillaskrá á því tímamarki sem gjöf er afhent eða framlag veitt og gildir frádráttarheimildin um framlög sem berast frá og með þeim degi sem sótt var um skráningu á almannaheillaskránna. 

Leiðbeinandi upplýsingar varðandi skráningu félaga á almannaheillaskrá: 

  • Farðu inn á rsk.is. Þrír valmöguleikar eru á innskráningu. Nóg er að skrá sig inn með veflykli viðkomandi félags/stofnunar.  
  • Eftir innskráningu opnast gluggi. Finndu flipann Samskipti á síðunni og smelltu á hann.
    Nú áttu að sjá annars vegar Samskipti og hins vegar val um Umsóknir
Graphical user interface, application Description automatically generated
  •  Veldu Umsóknir. Smelltu á: Skráning á almannaheillaskrá. 
       Upp kemur eftirfarandi síða: Umsókn um skráningu á almannaheillaskrá Skattsins.
  •  Gangtu úr skugga um að nafnið á þínu félagi sé neðst á síðunni 
  •  Veldu flipann: Áfram  -  Hér þarf umsækjandi að velja á milli nokkurra flokka. Hakaðu við þá starfsemi sem á við í þínu tilfelli.

Graphical user interface, text, application, email Description automatically generated

  • Svara þarf hvað félagið þitt hefur fengið háa styrki og hvað það hefur veitt mikið af styrkjum. 
  • Í næsta skrefi þarftu að skrifa netfang félags/stofnunar og haka við að allar upplýsingar séu réttar. 
  • Sendu efnið frá þér. 
  • Að síðustu á að koma upp gluggi þar sem segir að umsóknin sé móttekin. Tilkynning um samþykkta umsókn verður send á tölvupóstfang tengiliðs við afgreiðslu umsóknar. 
Graphical user interface, application, Teams Description automatically generated

 

Tengill á upplýsingar hjá skattinum.

Almannaheillaskrá - skattafrádráttur

Opna umsókn um skráningu á Almannaheillaskrá.