Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Ólympíuhópur ÍSÍ 2026

Vetrarólympíuleikarnir fara fram 6.-22. febrúar næstkomandi. Baráttan um sæti á leikunum er hörð og það mun endanlega skýrast á nýju ári hvað Ísland mun eiga marga keppendur á leikunum.

Skíðasamband Íslands tilnefndi átta einstaklinga í Ólympíuhóp ÍSÍ en hópurinn er skipaður öflugu skíða- og snjóbrettafólki sem hefur náð eftirtektarverðum árangri undanfarin ár.

Afreksmiðstöð Íslands og Skíðasamband Íslands hafa haldið utan um hópinn og boðið upp á fræðslu og fagþjónustu.

 

Ólympíuhópur ÍSÍ er skipaður eftirfarandi keppendum:

  • Anna Kamilla Hlynsdóttir - snjóbretti
  • Bjarni Þór Hauksson - alpagreinar
  • Dagur Benediktsson - skíðaganga
  • Gauti Guðmundsson - alpagreinar
  • Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir - alpagreinar
  • Jón Erik Sigurðsson - alpagreinar
  • Kristrún Guðnadóttir - skíðaganga
  • Matthías Kristinsson - alpagreinar
_33A9662_(2).jpg (6560751 bytes)

Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir

Hólmfríður Dóra er ein reynslumesta skíðakona landsins en hún keppir í alpagreinum. Hólmfríður hefur um árabil verið í fremstu röð hérlendis en hún er margfaldur Íslands- og bikarmeistari.

Hún keppti á Ólympíuleikunum í Peking 2022 þar sem hún hafnaði í 32. sæti í risasvigi og 38. sæti í svigi.

Á HM í Saalbach á þessu ári hafnaði hún í 29. sæti í bruni og í janúar keppti hún í heimsbikarnum, sterkustu mótaröð skíðaíþróttanna, í Cortina d’Ampezzo og hafnaði í 46. sæti í risasvigi og 50. sæti í bruni.

_33A0003_(2).jpg (7801755 bytes)

Dagur Benediktsson

Dagur er einn fremsti skíðagöngumaður Íslands og hefur náð góðum árangri innanlands og á alþjóðavettvangi. Hann varð Íslandsmeistari í öllum greinum skíðagöngu á Skíðamóti Íslands árin 2024 og 2025.

Á alþjóðlegum mótum erlendis hefur Dagur einnig náð eftirtektarverðum árangri. Í fyrra hafnaði hann í 26. sæti á móti í Idre í Svíþjóð og á þessu ári varð hann í 53. sæti í 10 km og 50 km greinum á HM í skíðagöngu.

_33A2249_(2).jpg (7705710 bytes)

Kristrún Guðnadóttir

Kristrún hefur unnið alla flokka á Íslandsmeistaramótum í gönguskíðum frá árinu 2019 og þá hefur hún undanfarin ár náð góðum árangri á alþjóðavettvangi. Þar má meðal annars nefna 15. sæti í sprettgöngu á Scandinavian Cup og 23. sæti á Alpen Cup árið 2024.

Kristrún átti 12. besta tímann í liðaspretti á HM 2023 og sama ár hafnaði hún í 31. sæti í Marcialonga, sem er 70 km ganga, og í 39. sæti í Vasaloppet, sem er 90 km ganga, og eru þetta bestu úrslit sem íslensk kona hefur náð í lengri göngum.

_33A1852_(2).jpg (6499870 bytes)

Jón Erik Sigurðsson

Jón Erik hefur átt frábært tímabil til þessa og er í 19. sæti á heimslista í svigi í sínum árgangi.

Jón Erik komst upp úr undankeppninni í báðum greinum á HM unglinga á Ítalíu fyrr á þessu ári og hafnaði í 22. sæti í svigi, sem er besti árangur Íslendings á mótinu.

Jón Erik náði að auki þeim magnaða árangri að vera ellefu sinnum í röð í verðlaunasæti á mótum erlendis á síðasta tímabili.

_33A2035_(2).jpg (4574793 bytes)

Bjarni Þór Hauksson

Bjarni Þór varð í 9. sæti í svigi og 10. sæti í stórsvigi á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í febrúar 2023 og hafnaði í 30. sæti í stórsvigi á HM unglinga í alpagreinum í febrúar 2024.

Bjarni varð þrefaldur Íslandsmeistari vorið 2024 þegar hann sigraði í stórsvigi, svigi og í alpatvíkeppni á Skíðamóti Íslands í alpagreinum og hann náði einnig frábærum árangri í öllum greinum Íslandsmótsins 2025.

Besti árangur hans á síðasta tímabili var 2. og 3. sætið á tveimur alþjóðlegum mótum í Noregi.

_33A2083_(2).jpg (5084940 bytes)

Matthías Kristinsson

Matthías hefur náð góðum árangri á alþjóðlegum mótum í Noregi síðustu misserin og árið 2024 fagnaði hann tvisvar sigri í svigkeppni, fyrst í Kirkerud í janúar og í Oppdal í apríl.

 Matthías hafnaði í 8.sæti í svigi á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar árið 2023 og fyrr á þessu ári varð hann í 3. sæti í svigkeppni í Raudalen.

_33A9786_(2).jpg (7007984 bytes)

Gauti Guðmundsson

Gauti er einn fremsti alpaskíðamaður Íslands og varð Íslandsmeistari í svigi og alpatvíkeppni árið 2025.

Á erlendum vettvangi hefur Gauti náð góðum árangri en þar má meðal annars nefna 45. sæti í stórsvigi á HM 2023 og 2. sæti á alþjóðlegu móti á Ítalíu 2024.

Góð frammistaða hans á síðasta tímabili tryggði honum sæti á meðal 250 efstu á heimslista.

_33A0280_(2).jpg (6698216 bytes)

Anna Kamilla Hlynsdóttir

Anna Kamilla hefur skrifað nýjan kafla í sögu snjóbrettaíþróttarinnar hjá Íslendingum með glæsilegum árangri á tímabilinu.

Á þessu ári varð Anna Kamilla bæði Noregs- og Íslandsmeistari, og er hún að auki fyrsta snjóbrettakonan til að vinna sér inn þátttökurétt á heimsbikarmótum.

Anna Kamilla var valin Skíðakona ársins árið 2024.