Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Bjarni Friðriksson

Bjarni Ásgeir Friðriksson fæddist 29. maí árið 1956. Hann er án efa þekktasti júdómaður þjóðarinnar og einn mesti afreksmaður íslenskra íþrótta. Hann byrjaði að stunda júdó um tvítugt og náði öðru sæti á sínu fyrsta Íslandsmóti árið 1977, en þá hafði hann aðeins æft í eitt ár.

Bjarni varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sínum þyngdarflokki árið 1978 og vann fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn í opnum flokki árið 1979. Bjarni náði góðum árangri á alþjóðlegum mótum og vann sitt fyrsta alþjóðlega mót árið 1980 á Opna skandinavíska meistaramótinu.

Bjarni keppti í júdó fyrir Íslands hönd á fjórum Ólympíuleikum á sínum íþróttaferli; í Moskvu 1980, í Los Angeles 1984, í Seoul 1988 og í Barcelona 1992.

Á Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980 hafnaði Bjarni í 7.–8. sæti í –95 kg. flokki. Á þessum tíma var hann kominn í hóp bestu júdómanna Evrópu. Bjarni varð Norðurlandameistari í sínum flokki í fyrsta sinn árið 1982 og vann þá alla andstæðinga sína með fullnaðarsigri.

Á Ólympíuleikunum í Los Angeles þann 9. ágúst árið 1984 keppti Bjarni í -95 kg. flokki. Það voru 24 keppendur í júdó á leikunum. Bjarni sat yfir í fyrstu umferð en sigraði síðan Danann Carsten Jensen í annarri umferð og Bandaríkjamanninn Leo White í þriðju umferð. Þar með komst hann í undanúrslit, en tapaði þeirri glímu á móti Douglas Vieira frá Brasilíu. Hann sigraði síðan Ítalann Yuri Fazi í glímu um bronsverðlaunin. Bjarni var þar með annar Íslendingurinn til þess að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum. 

Á Ólympíuleikunum í Seoul árið1988 varð Bjarni í 9. sæti í -95 kg. flokki og í Barcelona 1992 féll hann úr keppni í fyrstu umferð. Árið 1989 var í raun besta ár Bjarna að frátöldu bronsárinu á Ólympíuleikunum. Á því ári náði hann meðal annars þeim árangri að verða í fimmta sæti í opnum flokki á Evrópumeistaramótinu. Auk Íslandsmeistaratitla vann Bjarni fimm sinnum til gullverðlauna á Norðurlandamótum. 

Bjarni var valinn Íþróttamaður ársins á Íslandi árið 1990. Bjarni hætti keppni á alþjóðavettvangi árið 1993 að loknu heimsmeistaramótinu í Kanada, en þá hafði hann keppt í sautján ár.

Bjarni Friðriksson var útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ 29. desember 2012. Hér má sjá hans síðu í Heiðurshöll ÍSÍ.

RÚV gerði þátt um Bjarna Friðriksson (360 gráður í nóv. 2012) þar sem hann segir frá því hvað hann er að gera í dag og gerir upp stærstu stundirnar á ferlinum. Þáttinn er hægt að sjá hér.

Myndasíða ÍSÍ - Bjarni Friðriksson.