Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar frestað

23.09.2020

 

Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar sem fram átti að fara 6.-13. febrúar 2021 í Vuokatti í Finnlandi hefur verið frestað. Hátíðin mun fara fram dagana 11.-18. desember sama ár. 

Gert er ráð fyrir um 1.800 keppendum frá 45 Evrópuþjóðum á hátíðina. Keppnisgreinar eru alpagreinar, skíðaskotfimi, íshokkí, snjóbretti, skíðaganga, skíðastökk, skautahlaup, listskautar og norræn tvíkeppni. Unnið hefur verið markvisst að því að jafna kynjahlutfall keppenda á hátíðinni og verður nú keppt í fyrsta sinn í íshokkíi stúlkna. 

Ákvörðun um frestunina var tekin af stjórn Samtaka evrópskra ólympíunefnda (EOC). Að sögn Niels Nygaard starfandi forseta EOC var um erfiða ákvörðun að ræða sem þó var orðin óhjákvæmileg. Í fleiri mánuði hafa vonir verið bundnar við að hægt yrði að halda hátíðina samkvæmt áætlun, nú er orðið ljóst að ekki er forsvaranlegt að halda hana í febrúar að teknu tilliti til aukinnar útbreiðslu kórónuveirusýkinga um Evrópu á síðustu vikum. Með því að halda hátíðina á sama ári og upphaflega stóð til ættu lang flestir af þeim sem ráðgerðu þátttöku að geta tekið þátt og notið hátíðarinnar. Fréttatilkynningu EOC vegna frestunnar Vetrarólympíuhátíðar Evrópuæskunnar má sjá í heild sinni hér.

Stjórn Samtaka Evrópsku Ólympíunefnda vinnur að tilfærslu hátíðarinnar í góðu samstarfi við framkvæmdaraðila í Vuokatti og þau alþjóðlegu sérsambönd sem að viðburðinum koma. 

Líkt og á undangengnum hátíðum er fyrirhuguð þátttaka íslenskra ungmenna, en áætlanir miða við að íslenskir keppendur taki þátt í alpagreinum, skíðagöngu, snjóbrettum og listskautum.