Sarajevo 2019 - Fyrsta keppnisdegi lokið
Nú er fyrsta keppnisdegi íslenska liðsins á Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Sarajevo og Austur-Sarajevo lokið. Veður hefur haft áhrif á keppni dagsins. Í byrjun dags rigndi en fór að snjóa upp úr hádeginu, hafði það í för með sér tafir á nokkrum keppnisstöðum og krefjandi aðstæður.
Fanney Rún Stefánsdóttir og Kolfinna Íris Rúnarsdóttir kepptu í 7,5km skíðagöngu. Fanney Rún náði tímanum 33:33.0 og var í 66. sæti. Kolfinna Íris náði tímanum 32:24.9 og var í 63. sæti. 78 keppendur tóku þátt í göngunni. Anja Weber frá Sviss sigraði á tímanum 25:22.5. Hér má sjá myndband frá keppninni.
Í 10km göngu pilta kepptu þeir Jakob Daníelsson og Egill Bjarni Gíslason. Jakob varð í 65. sæti á tímanum 36:35,8s og Egill Bjarni í 68. sæti á tímanum 37:01,5. Sigurvegari keppninnar var Frakkinn Florian Perez á tímanum 30:37,8. Hér má sjá myndband frá keppninni.
Í svigi stúlkna keppti Guðfinna Eir Þorleifsdóttir. Í fyrri ferðinni skíðaði hún á 57,88 sekúndum en féll úr keppni í seinni ferðinni. Aðstæður voru mjög erfiðar og margir keppendur sem heltust úr lestinni.
Fjórir íslenskir strákar kepptu á snjóbretti (slope style), þátttakendur fengu tvær tilraunir og gilti sú betri. Baldur Vilhelmsson varð efstur í sínum riðli undankeppninnar með einkunnina 89.67 (80.67). Kolbeinn Þór Finnsson lenti í 16. sæti í sama riðli með einkunnina 49.00 (25.00). Bjarki Arnarsson er í 14. sæti í sínum riðli með einkunnina 50.00 (23.33) og Birkir Þór Arason í 15. sæti í sama riðli með 48.67 (13.33). Þrír efstu í hvorum riðli tryggðu sig beint inn í úrslit sem fara fram á morgun. Þar keppa þeir sem lentu í 4.-12. sæti í riðlunum tveimur um sex laus sæti í úrslitunum. Baldur verður því einn af tólf sem keppa til úrslita í greininni.
Á meðfylgjandi myndum má sjá íslenska keppendur í keppni í dag. Á fyrstu mynd má sjá Fanneyju og Kolfinnu með þjálfurum sínum Vadim Gusev og Tormod Vatten. Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ og Sigríður Jónsdóttir í framkvæmdastjórn ÍSÍ fylgdust með Fanneyju og Kolfinnu í skíðagöngunni, en myndin er tekin eftir þá keppni. Einnig má sjá strákana okkar sem kepptu í 10 km skíðagöngu, Jakob og Egil. Að lokum má sjá Baldur í keppni á snjóbretti.
Hægt er að fylgjast með íslenskum þátttakendum á hátíðinni í gegnum miðla ÍSÍ:
Vefsíða ÍSÍ
Facebook ÍSÍ
Instagram ÍSÍ
SnapChat ÍSÍ (á meðan á hátíðinni stendur): isiiceland
Vefsíða leikanna
Facebook síða leikanna
#eyof2019 #sarajevo #eastsarajevo