Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Ísland með tvo fulltrúa í stjórn Evrópska fimleikasambandsins

05.12.2017

Á ársþingi Evrópska fimleikasambandsins (UEG) um síðastliðna helgi voru þær Sólveig Jónsdóttir og Hlíf Þorgeirsdóttir kjörnar í stjórn sambandsins til næstu fjögurra ára. Þær hafa báðar starfað í nefndum UEG síðastliðin ár. Hlíf var sjálfkjörin sem formaður nefndar um fimleika fyrir alla hjá UEG og með því embætti er hún sjálfkrafa í stjórn sambandsins en Sólveig háði mikla baráttu í kosningu um sæti í stjórn. Sjö sæti voru í boði sem þrettán einstaklingar kepptu um. 
Það er mikill heiður fyrir Fimleikasamband Íslands og stuðningur við fimleikahreyfinguna í landinu að eiga nú tvo fulltrúa í stjórn UEG en Ísland er eina landið sem á þar fleiri en einn fulltrúa.

Fyrir þingið bárust Fimleikasambandinu þau tíðindi að EuroGym 2020 hafi verið úthlutað til Íslands en hátíðin verður sú tólfta í röðinni. EuroGym er risavaxin fimleikahátíð fyrir 12-18 ára ungmenni sem haldin er annað hvert ár og stendur yfir í um vikutíma. Hátíðin mun fara fram 11.-19. júlí 2020, víðsvegar á götum og torgum Reykjavíkurborgar í samvinnu og samstarfi við borgaryfirvöld. Næsta hátíð verður í Liege í Belgíu árið 2018.

ÍSÍ óskar Fimleikasambandi Íslands innilega til hamingju með kjör Sólveigar og Hlífar í stjórn UEG og óskar sambandinu einnig alls góðs í undirbúningi fyrir EuroGym 2020.