Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Sameinuð samtök - farsælt starf í 20 ár

01.11.2017

Í dag, 1. nóvember 2017, eru 20 ár síðan stofnþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), sameinaðra samtaka Íþróttasambands Íslands og Ólympíunefndar Íslands (ÓÍ), fór fram á Grand Hótel Reykjavík.
Fyrir sameininguna sá Ólympíunefnd Íslands um undirbúning og þátttöku Íslands í Ólympíuleikum en Íþróttasamband Íslands sameinaði íþróttahreyfinguna á Íslandi undir einu merki, vann að því að breiða út íþróttaáhuga, efla innra starf og var samnefnari í baráttu fyrir hagsmunamálum hreyfingarinnar. Íþróttasamband Íslands var stofnað árið 1912 m.a. vegna þess að Íslendingar vildu taka þátt í Ólympíuleikum það árið og til þess að eiga þess kost þurfti að stofna formlega samtök íslenskrar íþróttahreyfingar. Það má því segja að Ólympíuleikar hafi verið forsenda stofnunar Íþróttasambandsins. Tæplega áratug síðar, eða árið 1921, skipaði Íþróttasambandið sérstaka Ólympíunefnd til að sjá um undirbúning og þátttöku Íslendinga í Ólympíuleikum. Sömu einstaklingarnir stjórnuðu lengst af báðum þessum samtökum enda um samsvarandi hugsjónir og hagsmuni að ræða innan þeirra beggja.

Megin ástæður sameiningar ÍSÍ og ÓÍ voru nokkrar. Ein var sú trú margra í hreyfingunni að það væri öllum til hagsbóta að öll íþróttamál, hvort sem þau heyrðu undir ÍSÍ eða ÓÍ, væru skipulagslega sem ein heild, undir einni lýðræðislega kjörinni stjórn. Einnig að hreyfingin stæði sameinuð gagnvart stjórnvöldum og sýndi ábyrgð í rekstri með því að hagræða, fækka yfirstjórnum og lækka kostnað. Allir sætu jafnir til borðs.
Ekki var átakalaust að sameina þessi tvö samtök og ágreiningur um ágæti þess gjörnings var hávær um tíma. Verkefnið var afar flókið og á margan hátt erfitt, bæði skipulagslega og tilfinningalega. Lykilatriðið í undirbúningi sameiningarinnar var að vel tókst til að verja hag bæði sérsambanda og íþróttahéraða við gerð laga nýrra samtaka og að íþróttahreyfingin sannfærðist um að undir merkjum einna samtaka yrði starfið öflugra, markvissara og ekki síst hagkvæmara.

Eftir sameiningu hefur enginn litið til baka með eftirsjá því strax varð ljóst að sameiningin var mikið heillaskref fyrir íþróttahreyfinguna í landinu. Sameinuð samtök hófu af krafti að efla starfið og færa það í nútímalegan búning. Stofnuð voru þrjú fagsvið innan ÍSÍ til að stýra þróunar- og fræðslumálum, afreks- og ólympíumálum og almenningsíþróttum en samkvæmt Ólympíusáttmála Alþjóðaólympíunefndarinnar þá er ÍSÍ m.a. skylt að hafa forgöngu um almenningsíþróttir (Sport for All). Svo vel telst hafa tekist til við sameiningu ÍSÍ og ÓÍ að samskonar samtök í öðrum löndum hafa horft til okkar sameiningar þegar unnið hefur verið að skipulagsbreytingum á þeim vettvangi. Uppbygging íþróttahreyfingarinnar í landinu hefur verið gríðarleg á síðustu 20 árum og nú, árið 2017, er svo komið að aðstaða til íþróttaiðkunar og fjölbreytt val um íþróttaiðkun er eitt af þeim grunnskilyrðum sem almenningur setur sér þegar það tekur ákvörðun um búsetu á landinu. Íþróttir eru mikilvægt byggðamál og niðurstaða rannsókna meðal ungs fólks styður einnig vel við starfið í hreyfingunni þar sem marg sannað er að þeir sem stunda reglubundið íþróttir innan skipulagðs starfs íþróttafélaganna í landinu verða síður áfengi, tóbaki og fíkniefnum að bráð. Árangur Íslendinga í íþróttum síðustu árin hefur verið einstaklega góður og vakið gríðarlega athygli út fyrir landsteinana. Hjartað í þjóðinni slær í takt við gengið í íþróttunum.

Sérsamböndum ÍSÍ hefur á síðustu 20 árum fjölgað úr 23 sérsamböndum í 32 og viðurkenndar íþróttagreinar innan vébanda ÍSÍ eru orðnar um 50 talsins þannig að það er úr mörgu að velja fyrir þá sem hafa áhuga á hreyfingu og ástundun íþrótta. Íþróttahéruðum hefur eðlilega fækkað úr 28 í 25 talsins í kjölfar sameininga sveitarfélaga um land allt. Allt starf innan hreyfingarinnar hefur orðið faglegra á þessum tveimur áratugum og samstarf hreyfingarinnar við sveitarfélög víða um land til fyrirmyndar. Uppbygging mannvirkja hefur víða verið hröð og mikil og má segja að á flestum þéttbýlisstöðum landsins sé ásættanleg vegalengd í góð mannvirki. Íþróttahreyfingunni hefur verið treyst fyrir því ábyrgðarmikla verkefni að vera þátttakandi í að ala upp þjóð og það er mín sannfæring að þar hefur okkur tekist einstaklega vel upp. Fjárframlag ríkisins til afreksíþróttamála hefur margfaldast á þessum tíma og eru spennandi tímar framundan hjá sérsamböndum ÍSÍ í enn frekari uppbyggingu afreksíþróttamála. Ferðasjóður íþróttafélaga var stofnaður árið 2006 og hefur árleg úthlutun úr sjóðnum létt verulega undir ferðakostnað félaga á landsvísu. Sérsambönd ÍSÍ fá nú árlega fjárframlag frá ríkinu sem eykur möguleika þeirra á því að þau geti ráðið til sín starfsmann.

Íþróttahreyfingin stendur og fellur með starfi sjálfboðaliða og það er ekkert minna en stórfenglegt að líta inn á við til þeirra miklu starfa sem sjálfboðaliðar í hreyfingunni leggja til á hverjum degi til að viðhalda öflugu og um margt merkilegu íþróttastarfi á þessari harðbýlu eyju. Veðurfar og aðstæður vinna ekki alltaf með okkur en úr þessu umhverfi virðist spretta ómældur fjöldi afreksíþróttafólks í ólíkum íþróttagreinum. Það er ekki sjálfgefið og má ætla að samstaða okkar Íslendinga, dugnaður og stuðningur við íþróttastarfið komi þar eitthvað við sögu. Fornt víkingagen skemmir sennilega ekki heldur fyrir! Foreldrar sem styðja við íþróttaiðkun barna sinna, fyrirmyndir úr hópi foreldra og íþróttafólks, þjálfarar, stjórnarfólk, starfsfólk – allir tilbúnir að leggja allt í verkefnin og líka þetta aukalega sem til þarf til að gera góða hluti frábæra. Íþróttahreyfingin sýndi og sannaði hvað í henni býr á árunum í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi þegar mikið mæddi á hreyfingunni. Þá var tekin meðvituð ákvörðun um það að slá hvergi af, standa saman og keyra hefðbundið íþróttastarf fyrir samfélagið svo að börn og unglingar hefðu íþróttirnar sem fastan punkt í lífinu, á meðan svo margt annað í umhverfinu var í miklu uppnámi. Þrátt fyrir skerðingu á fjárframlögum til hreyfingarinnar var hvergi hnikað og af því megum við vera stolt.

Við þessi tímamót horfum við hjá ÍSÍ fram á veginn og hlökkum til að gera enn betur. Enn sem fyrr ætlum við að leggja metnað í starf hreyfingarinnar og hjálpast að líkt og verið hefur, við að efla íþróttastarfið í landinu enn frekar.

Ég er þakklátur fyrir þau tuttugu ár sem að baki eru í sameinuðum samtökum. Þau hafa verið viðburðarrík og eftirminnileg og samstaðan í hreyfingunni hefur verið áþreifanleg. Það eru spennandi tímar að baki en það eru ekki síður spennandi tímar framundan.
Lárus L. Blöndal
forseti ÍSÍ