Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
16

Ánægja í íþróttum meðal grunnskólanema í 8.-10.bekk

07.04.2017

Rannsóknirnar Ungt fólk eru rannsóknir á högum, líðan og aðstæðum ungs fólks sem gerðar hafa verið á Íslandi reglubundið frá árinu 1992 í 5.-10. bekk í grunnskóla og öllum bekkjum í framhaldsskóla. Rannsóknirnar eru þýðisrannsóknir en í því felst að spurningalistar eru lagðir fyrir allt þýðið sem í þessu tilfelli eru allir þeir sem mættir eru í skólann í 8.-10. bekk í febrúarmánuði 2016. Um er að ræða gild svör frá rúmlega 10.500 nemendum og eru niðurstöður því mjög áreiðanlegar.

ÍSÍ og UMFÍ fengu að setja inn í spurningalistann nokkrar spurningar til að kanna ánægju ungmenna með íþróttafélagið sitt og aðra þætti er lúta að íþróttaþátttöku. Hversu ánægð/ur ertu með íþróttafélagið, þjálfarann og aðstöðuna og helstu áhersluatriði þjálfarans í starfinu. Einnig voru skoðuð tengsl íþróttaiðkunar við aðra þætti eins og vímuefnaneyslu, námsárangur, andlega og líkamlega heilsu og sjálfsmynd. Niðurstöður voru flokkaðar eftir íþróttahéruðum.

Í niðurstöðum kemur fram að unglingarnir eru sammála þeirri fullyrðingu að þeim finnist venjulega gaman á æfingum, en 88% unglinga eru á þeirri skoðun. Einnig eru 88% unglinga sammála þeirri fullyrðingu að þeir séu ánægðir með íþróttafélagið sitt. Um 85% unglinga eru sammála þeirri fullyrðingu að þeir séu ánægðir með þjálfarann sinn, um 81% eru ánægðir með íþróttaaðstöðuna og 83% eru ánægðir með félagslífið.
Hlutverk þjálfara og ábyrgð hans á uppeldi iðkenda er ótvírætt og skiptir því sköpum hvaða áherslur hann leggur í starfi sínu á hluti eins og sigur í keppni, drengilega framkomu og heilbrigt líferni. Niðurstöður þessarar könnunar sýna að 75% unglinga upplifa að þjálfarar leggja mikla eða mjög mikla áherslu á sigur í íþróttakeppni. Þá er mikil áhersla þjálfara á að íþróttakrakkar temji sér drengilega framkomu í leik og er það upplifun 86% unglinga. 89% unglinga segja að þjálfarar þeirra leggi mikla áherslu á að þau stundi heilbrigt líferni.

Almenn neysla vímuefna í grunnskólum hefur dregist mjög mikið saman á undanförnum áratugum. Þegar skoðuð eru tengsl íþróttaiðkunar og vímuefnaneyslu þá kemur fram að þeir unglingar sem stunda íþróttir með íþróttafélagi eru mun ólíklegri til að neyta vímuefna en þeir einstaklingar sem ekki stunda íþróttir. Það er vert að geta þess að notkun rafsígaretta hefur náð talsverðri útbreiðslu og á það líka við um unglinga sem stunda íþróttir með íþróttafélagi, þó svo að þau séu ólíklegri til að ástunda slíka hegðun.

Það er óhætt að segja að niðurstöður rannsóknarinnar séu mjög jákvæðar fyrir íþróttahreyfinguna í heild og staðfesta það mikla forvarnargildi sem felst í iðkun íþrótta með íþróttafélagi. Það er ekki hreyfingin sem slík sem hefur forvarnargildi heldur sú menning, umgjörð og þær hefðir sem skapast hafa innan íþróttafélaganna. Hægt er að fullyrða að eftir því sem unglingurinn æfir íþróttir oftar í viku með íþróttafélagi, því ólíklegri er hann til að ástunda neikvæða hegðun.

Þessar niðurstöður voru flokkaðar eftir íþróttahéruðum og voru niðurstöður sendar út á öll héruð.

Myndir með frétt