Sjóvá kvennahlaup ÍSÍ
Vefsíða Sjóvá Kvennahlaups ÍSÍ er kvennahlaup.is
Hér má sjá Facebook-síðu Sjóvá Kvennahlaups ÍSÍ.
Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ verður haldið 11. september 2021
Á vefsíðu hlaupsins er að finna helstu upplýsingar um hlaupið, sögu hlaupsins og hlaupastaði.
Kvennahlaup í yfir 30 ár
Fyrsta Kvennahlaup ÍSÍ var haldið 30. júní árið 1990 í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ. Hlaupið var í Garðabæ og á 7 stöðum um landið; á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði, Laugum í Þingeyjarsýslu, Grundarfirði, Stykkishólmi og í Skaftafellssýslu. Rúmlega 2.000 konur tóku þátt í Garðabæ og um 500 konur á landsbyggðinni.
Upphaflega var markmið hlaupsins að fá fleiri konur út að hreyfa sig og að hvetja konur til þátttöku í starfi íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Þau markmið hafa um margt náðst þar sem konur hreyfa sig mun meira í dag en fyrir 30 árum, íslenskar íþróttakonur eru að ná frábærum árangri á heimsvísu og margar konur í forsvari fyrir íþróttahreyfinguna hérlendis. Í dag er áherslan ekki hvað síst á samstöðu kvenna, að hver njóti þess að hreyfa sig á sínum forsendum og eigi ánægjulega samverustund með fjölskyldu og vinum.
Hlaupið er árviss viðburður hjá mörgum konum sem taka daginn frá til að hlaupa með dætrum, mæðrum, ömmum, systrum, frænkum og vinkonum sínum og margir karlmenn slást líka í hópinn.
Hlaupið um allt land og allan heim
Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ er alla jafna haldið á yfir 80 stöðum á landinu. Fjölmennasta hlaupið er haldið í Garðabæ og einnig fer stórt hlaup fram í Mosfellsbæ. Á landsbyggðinni fara einnig fram fjölmenn hlaup sem skipulögð eru af öflugum konum í hverju bæjarfélagi fyrir sig. Íslenskar konur sem eru búsettar erlendis hafa einnig tekið sig til og haldið Kvennhlaup víða um heim, í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Færeyjum, Þýskalandi, Belgíu, Lúxemborg, Mallorca, Bandaríkjunum, Mósambík og Namibíu.
Allar á sínum forsendum
Konur á öllum aldri taka þátt í Kvennahlaupinu, allt frá litlum stelpum í kerrum til langamma þeirra. Hver kona tekur þátt á sínum forsendum og allir eiga að geta fundið vegalengd við sitt hæfi. Það er því engin tímataka í hlaupinu heldur lögð áhersla á að hver komi í mark á sínum hraða, með bros á vör.
Myndir frá Sjóvá Kvennahlaupi ÍSÍ má sjá á myndasíðu ÍSÍ hér.
Kvennahlaupsbolurinn 2021 er annar í röðinni síðan klassíska hönnunin var lögð á hilluna. Þótt gamli bolurinn hafi notið vinsælda var hann barn síns tíma. Nýju bolirnir eru hannaðir sem flíkur sem bæði henta við líkamsrækt en einnig við dagleg störf, framleiddir á ábyrgan hátt með velferð umhverfisins að leiðarljósi.
Eitt af aðalsmerkjum gamla Kvennahlaupsbolsins var nýr litur ár hvert og einmitt þess vegna ríkti eftirvænting þegar bolurinn var kynntur. Hönnun bolsins í ár tekur mið af þessari skemmtilegu venju því enda þótt bolurinn sjálfur sé hvítur tekur hann með sér mjög afgerandi og fallegan lit sem einkennir hlaupið í ár. Bolurinn undstrikar mikilvægi þess að gera hlutina SAMAN með einkennisorð hlaupsins í öndvegi.
HLAUPUM SAMAN í fallegum og umhverfisvænum Kvennahlaupsbol.
Við vekjum athygli á því að hægt verður að kaupa miða í Kvennahlaupið án þess að kaupa bol. Þá er t.d tilvalið að nýta gamlan Kvennahlaupsbol til að hlaupa í aftur.